Vegagerðarmenn í umferðareftirliti

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 13:59:55 (2138)

2000-11-22 13:59:55# 126. lþ. 30.2 fundur 85. mál: #A vegagerðarmenn í umferðareftirliti# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[13:59]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr um stöðu vegagerðarmanna í umferðareftirliti. Í fyrsta lagi: Hver er réttarstaða þeirra vegagerðarmanna sem áformað er að sinni umferðareftirliti samkvæmt umferðarátaki því sem ráðherra kynnti í júlí sl. ef til átaka kemur? Þegar hefur verið fjallað um nýtt samkomulag ríkislögreglustjóra og Vegagerðarinnar um aukið umferðareftirlit. Eins og áður sagði hafa eftirlitsmenn Vegagerðarinnar unnið með lögreglu við eftirlit um árabil þótt nú hafi verið ákveðið að útvíkka það til almennra umferðarlagabrota.

Engar grundvallarbreytingar verða á réttarstöðu þeirra þó að bílar Vegagerðarinnar fái lögreglumerkingar og sinni þessum nýju verkefnum. Komi til átaka er réttarstaða þeirra sú sama og á við um ríkisstarfsmenn almennt. Hefur ekki reynt á það til þessa að vegagerðarmenn í samvinnu við lögreglu hafi lent í átökum og lítil ástæða til að ætla að svo verði. Með hinu nýja fyrirkomulagi skapast aukið aðhald á ökumenn á þjóðvegum og auk þess munu lögreglumenn á bílum sinna almennu umferðareftirliti og geta tekið á fjölmörgum brotum, t.d. með hraðamælingum. Mun þá starfsmaður Vegagerðarinnar vera vitni í slíkum málum.

Það er ekki markmið með samkomulaginu, hv. fyrirspyrjandi, að láta vegagerðarmenn sinna almennum lögreglustörfum.

Í öðru lagi er spurt: Eru þeir tryggðir til jafns við lögreglumenn? Tryggingar eftirlitsmanna eru með sama hætti og annarra ríkisstarfsmanna, þ.e. samkvæmt reglugerð nr. 30/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna vegna slysa sem þeir verða fyrir í starfi. Fram til þessa hafa vegaeftirlitsmenn ekki haft tryggingar umfram þetta eins og lögreglumenn og stendur ekki til að það breytist.

Í þriðja lagi er spurt: Verða þeir bundnir þagnarskyldu til jafns við lögreglumenn? Því er til að svara að allir ríkisstarfsmenn eru bundnir þagnarskyldu skv. 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Er þagnarskylda lögreglumanna áréttuð í 22. gr. lögreglulaganna. Er engin ástæða til annars en ætla að þagnarskylda vegaeftirlitsmanna sé hin sama og á við um lögreglumenn.

Í fjórða lagi er spurt: Hvaða þjálfun fá þeir í að sinna þessum störfum? Stefnt er að því að ríkislögreglustjóri í samvinnu við Lögregluskólann haldi námskeið um almennt umferðareftirlit, bæði fyrir lögreglu og vegaeftirlitsmenn, þar sem tekið verður á ýmsum þáttum, svo sem flutningi á hættulegum farmi, ástandi ökutækja o.fl. Með þessu er stefnt að því að efla faglega þekkingu þeirra sem sinna umferðareftirlitinu.

Herra forseti. Það er afar gott að fyrirspyrjandi beri hag vegagerðarmanna fyrir brjósti og réttarstöðu þeirra, en eins og lýst hefur verið er hún vel tryggð miðað við þau verkefni sem þeim er ætlað að fást við.