Lækkun húshitunarkostnaðar árið 2001

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 14:06:38 (2141)

2000-11-22 14:06:38# 126. lþ. 30.3 fundur 247. mál: #A lækkun húshitunarkostnaðar árið 2001# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Virðulegi forseti. Fsp. mín á þskj. 272 er til hæstv. iðnrh. Þar er spurt um frekari lækkun húshitunarkostnaðar á næsta ári, árið 2001.

Fyrri liður spurningarinnar er svohljóðandi:

,,Hvernig verður staðið við fyrirheit um áframhaldandi lækkun húshitunarkostnaðar árið 2001, sbr. 12. tölul. í þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001 sem samþykkt var á Alþingi 3. mars 1999?``

Hér er vitnað til þverpólitískrar nefndar sem hæstv. forsrh. skipaði í sambandi við kjördæmabreytinguna. Fyrsta tillaga þeirrar nefndar um aðgerðir í byggðamálum var um að húshitunarkostnaður yrði lækkaður í jöfnum áföngum á næstu þremur árum eða árin 1999, 2000 og 2001.

Ég get ekki séð, herra forseti, að í frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 sé ætlunin að standa við þessi loforð, hvorki byggða\-áætlunina né það sem kom fram frá þeirri nefnd forsrh. sem ég minntist á. Þó tók hæstv. forsrh. mjög öflugt undir þá stefnu í ræðustól Alþingis og leit á sem þverpólitíska niðurstöðu um aðgerðir í byggðamálum. Ég get ekki séð í fjárlögum, herra forseti, að gert sé ráð fyrir auknu fjármagni í það. Þar er einungis hækkað úr 760 millj. kr. þetta árið í 790 millj. kr, sem er sennilega ekki mikið meira en verðbætur. Ég spyr því hæstv. iðnrh. hverju það sætir að ekki er gert ráð fyrir hærri tölu í þetta. Með öðrum orðum: Er ekki ætlunin að standa við þau loforð sem þarna voru gefin?

Þess má geta, herra forseti, að í gögnum sem að vísu eru 2--3 ára gömul og lögð voru fyrir umrædda nefnd kemur fram að um 64 þús. íbúar þessa lands búa við dýra húshitun sem getur verið allt frá 100-- 120 þús. kr. og dæmi eru um 130--180 þús. kr. orkureikning á ári.

Seinni liður þessarar fsp. er um hvort áform séu uppi um að notendur dýrra hitaveitna njóti niðurgreiðslna til samræmis við notendur rafhitunar. Mér hefur fundist vanta á, herra forseti, að þeir sem búa við dýrar hitaveitur og hafa hitaveitur á sínum svæðum hafi notið þessarar niðurgreiðslu. Í gögnum frá nefnd sem hæstv. iðnrh. skipaði ekki alls fyrir löngu kemur fram að þeir íbúar landsins sem búa við þessar dýru hitaveitur borga töluvert hærri húshitunarreikninga en þeir sem búa á svæði Rafmagnsveitna ríkisins.