Lækkun húshitunarkostnaðar árið 2001

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 14:18:33 (2146)

2000-11-22 14:18:33# 126. lþ. 30.3 fundur 247. mál: #A lækkun húshitunarkostnaðar árið 2001# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[14:18]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Svo mikið er víst að ég er ekki í neinum loftfimleikum í þessu máli. Ég veit að hv. þm. trúir ekki sjálfur því sem hann er að segja. Málið er að við þurfum að finna einhverja skynsamlega niðurstöðu. Við erum að verja heilmiklum fjármunum í þetta. Við verjum samkvæmt fjárlagafrv. fyrir næsta ár 790 millj. til þessa eins og stendur í frv. Það sem ég er að reyna að leitast við er að finna leið sem allir geti þokkalega sætt sig við vegna þess að með því að halda áfram að greiða niður rafupphitun þá erum við náttúrlega að gera samkeppnisstöðu hitaveitnanna erfiða, þeirra sem eru dýrar.

Það loforð sem hv. þm. talaði um að hefði verið gefið um að lækka húshitunarkostnað náði eingöngu til rafhitunarinnar. (Gripið fram í: Ha!) Þannig er það nú. Hins vegar viljum við samt sem áður a.m.k. reyna að koma málum þannig fyrir að tekið verði á vandamálum hitaveitna þar sem verulega erfiður rekstur er og dýr ... (KLM: Það er talað um húsahitun.) Ég veit alveg hvað ég er að tala um og ætla ekki að ræða hér við hv. þm. í tveggja manna tali.

Sú nefnd sem er að störfum og sem ég skipaði til þess að reyna að finna niðurstöðu í þessu máli mun ljúka störfum innan nokkurra daga. Við höfum ekki lokað fjárlögunum þannig að við skulum ekki vera of svartsýn í þessum efnum. Ég vil hins vegar taka það fram, og það kom fram í minni fyrri ræðu, að núna er verið að greiða innan við 50% af gjaldskrá Rariks þannig að einhvers staðar verður náttúrlega að stöðva. Ef fjármunir fást til byggðamála, því ég tel þetta vera byggðamál, þá er ég ekkert sannfærð um að einmitt þetta sé það brýnasta.