Fyrirtæki í útgerð

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 14:28:32 (2149)

2000-11-22 14:28:32# 126. lþ. 30.4 fundur 138. mál: #A fyrirtæki í útgerð# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[14:28]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hér er í raun verið að varpa fram grundvallarspurningum vegna þess að um er að ræða samkeppnisstöðu og þá í leiðinni að hve miklu leyti samkeppnislög gilda fyrir sjávarútveg. Eins og reglurnar eru í dag er í rauninni um að ræða lögverndað verðsamráð. Það er það sem hæstv. ráðherra var að vitna í hér áðan. Það hefur þó ekki dugað til vegna þess að enn á ný sjáum við fram á mjög erfiða kjaradeilu útvegsmanna og sjómanna sem snýst, herra forseti, einmitt um deilu manna af því að sjómönnum er mismunað vegna þess hvernig er gert upp. Það er sem sagt gert með mismunandi hætti og menn hafa komist upp með það. Um það hafa verið settar reglur sem beinlínis stuðla að mismunun.

Hv. þm. varpaði fram dæmi um mismunun varðandi það hvernig gert er upp eftir því hvort útgerð á vinnslu eða ekki. Fiskvinnslunni í landinu er líka mismunað, herra forseti, og þess vegna snýst þessi spurning um grundvallaratriði. Hún snýst um samkeppnislög.