Fyrirtæki í útgerð

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 14:33:43 (2152)

2000-11-22 14:33:43# 126. lþ. 30.4 fundur 138. mál: #A fyrirtæki í útgerð# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[14:33]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég held að Verðlagsstofa skiptaverðs geri athugasemdir við samninga sem eru upp á 60 kr. á kg af þorski. Ég hef trú á að það sé staðan eins og hún er í dag og athugasemdir sem hafa verið gerðar á þeim grundvelli hafi leitt til þess að verð sem skipt er úr hafi verið hækkað. Ég þekki vel þær aðstæður sem hv. þm. lýsir og að vissu leyti má segja að þær séu ólíkar hjá þeim sem eru bæði með veiðar og vinnslu og hinna sem veiða án þess að hafa útgerð, en sú staða er komin upp að langmestu leyti til vegna samninga sem sjómenn og útgerðarmenn hafa gert sín á milli og þetta væri hægt að leysa í samningum þessara aðila.

Eins og ég lýsti áðan hefur reynsla okkar af því að framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið hafi verið að skipta sér af þessum samningum ekki verið góð. Við sitjum raunverulega enn þá uppi með vandamálið eftir þrjár atrennur á þessum áratug og því vil ég ekki, jafnvel þótt ég viti að allir hafi góðan vilja, að menn fari frá þessari umræðu með stórar væntingar um að mér takist með einhverjum töfrasprota að leysa þetta mál. Þetta er flókið vandamál og fleiri koma að því en við sem stöndum að framkvæmdar- og löggjafarvaldinu og við þurfum að taka tillit til þess, en auðvitað viljum við að jafnræðis sé gætt í hvívetna í öllum þeim málum sem við komum nálægt.