Endurbygging og varðveisla gamalla húsa

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 14:51:01 (2159)

2000-11-22 14:51:01# 126. lþ. 30.6 fundur 248. mál: #A endurbygging og varðveisla gamalla húsa# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[14:51]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Fsp. mín, sem er á þskj. 273, er til hæstv. menntmrh. og fjallar um átak til endurbyggingar og varðveislu gamalla húsa á landsbyggðinni. Í byggðaáætlun sem Alþingi hefur samþykkt kemur fram að sérstakt átak skuli gert til endurbyggingar og varðveislu gamalla húsa á landsbyggðinni. Spurning mín er sem sagt um það hvaða sérstaka átak hefur verið gert í þessum efnum og hvernig okkur miðar.

Við vitum að töluverð vakning hefur verið um allt land til að byggja upp gömul hús, sem betur fer. Það eru ekki nema tíu ár eða svo síðan gömlum húsum var rutt niður með jarðýtum og þau sett á áramótabrennur. Sem betur fer hefur orðið vakning í þeim málum.

Þá kem ég að öðrum lið spurningar minnar, um hversu miklu fé hafi verð varið til þessa málaflokks úr ríkissjóði sl. fimm ár. Í þjóðminjalögum var kveðið á um hvernig þetta skyldi fjármagnað og hvernig þetta yrði búið til í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og ríkissjóð. Mér er kunnugt um, það kom fram á fundi sveitarstjórnarmanna ekki alls fyrir löngu, að sl. fimm ár hafi verið lagðar til húsafriðunarsjóðs rúmar 200 millj. Þess vegna er spurt út í hvað ríkissjóður hafi gert á sama tíma, hvort svipað fjármagn hafi verið veitt í það átak sem boðað er í byggðaáætlun.

Þriðja spurningin er svohljóðandi:

,,Telur ráðherra hugsanlegt að veita hærri styrki til uppbyggingar gamalla húsa á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu?``

Þessi spurning er sett fram vegna þess að það er jafnt með gömul hús sem ný hús að fasteignamarkaðurinn er töluvert ólíkur á landsbyggð og höfuðborgarsvæði. Á höfuðborgarsvæðinu er auðvelt að koma gömlum húsum í notkun og leigja þau, selja eða hvernig sem það er gert, en á landsbyggðinni er það töluvert erfiðara. Þar þarf e.t.v. miklu meiri framlög viðkomandi sveitarsjóða eða áhugamannahópa sem leggja fram mikið fé til að varðveita þessar sögulegu minjar og fallegu hús sem víða eru. Hins vegar er mjög erfitt að fá tekjur í staðinn eða koma því þannig fyrir að þau standi undir sér eða borgi af nauðsynlegum lánum.

Þess vegna tel ég, herra forseti, athugandi í þessu dæmi hvort ekki væri ástæða til að hafa þar á jákvæða mismunun til að auðvelda uppbyggingu og friðun gamalla húsa vítt og breitt um landið. Eins og ég sagði áðan hefur orðið mikil vakning hin síðari ár til að varðveita þau en betur má ef duga skal og við ætlum ekki að glata öllum þeim menningarsögulegu verðmætum sem þar eru.