Endurbygging og varðveisla gamalla húsa

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 14:57:39 (2162)

2000-11-22 14:57:39# 126. lþ. 30.6 fundur 248. mál: #A endurbygging og varðveisla gamalla húsa# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[14:57]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans við þessari spurningu. Þó finnst mér ekki hafa komið alveg skýrt fram varðandi þriðja liðinn hvort hann telji hugsanlegt að veita hærri styrki til uppbyggingar gamalla húsa á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þó tók ég eftir afar athyglisverðum tölum í máli hæstv. ráðherra. Ég held að fram hafi komið að árið 2000 var hærri styrkur veittur til landsbyggðar en höfuðborgarinnar. Spurningin er hins vegar hvort ekki hafi verið gerð upp margfalt fleiri hús á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Það er auðvitað hlutur sem þarf að kanna betur.

Jafnframt vil ég fagna því sem kom fram í svari hæstv. ráðherra um þau framlög sem veitt eru þó vafalaust sé alltaf hægt að gera betur og veita meira fjármagn í þessi verkefni.

Ég ítreka hins vegar það sem ég sagði áðan. Það hefur sem betur fer orðið mikil vakning í endurbyggingu gamalla húsa á landsbyggðinni. Samt sem áður er það svo að framlög frá húsafriðunarsjóði til ýmissa framkvæmda eru framkvæmdastyrkir og svo litlir að það háir mjög þessari uppbyggingu. Spurningin er hvort ekki þyrfti að móta reglur um að ákveðnar upphæðir frá ríkinu á móti framlagi þeirra sem eru að endurbyggja. Ég segi þetta vegna þess að ég veit að til að gera betur í þessum efnum og láta það ganga betur hafa einstaklingar jafnvel lagt fram töluverðar fjárhæðir af hugsjóninni einni saman til að varðveita ákveðin hús. Framlög frá hinu opinbera, hvort sem er frá húsafriðunarsjóði eða gegnum fjárlög, hafa ekki verið í takt við þau framlög.

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svar hans. Það var athyglisvert. En betur má ef duga skal.