Framleiðsla og sala áburðar

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 15:01:40 (2164)

2000-11-22 15:01:40# 126. lþ. 30.7 fundur 218. mál: #A framleiðsla og sala áburðar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[15:01]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Vegna þess sem hv. þm. minntist á í upphafi, kadmíuminnihald í áburði, þá liggur það fyrir að þetta er ákveðin tegund áburðar og þetta snýr ekki að innanlandsframleiðslunni heldur hinu að menn, hvort sem þeir framleiða eða selja áburð, eigi viðskipti þar í veröldinni sem þetta er sem lægst. Áburðarverksmiðjan hefur verið í mjög góðum málum hvað þetta varðar og átt viðskipti á góðum stað þar sem er lágt kadmíuminnihald. Það er hárrétt hjá hv. þm. og mikilvægt þrátt fyrir frelsið í þessu efni að þeir mörgu innflytjendur sem nú eru komnir til staðar sinni þeirri sérstöðu Íslands og íslenskrar náttúru að fylgja því eftir að sem lægst kadmíuminnihald sé og í því hef ég boðað hertar aðgerðir.

Hv. þm. spyr: Hve mikill áburður var framleiddur innan lands árin 1998, 1999 og 2000? Ekki hafa fengist upplýsingar um framleitt magn á innlendum áburði á árunum 1998, 1999 og 2000.

Hv. þm. spyr: Hve mikið af framleiðslunni var selt á hverju ári? Ekki hafa fengist upplýsingar um selt magn á áburði á umræddu tímabili.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.: Hve mikið af áburði var flutt inn til landsins sömu ár? Innfluttur áburður var sem hér segir í þúsundum tonna: 1998 26.073 tonn, 1999 38.096 tonn, 2000 42.875 tonn.

Í fjórða lagi spyr hv. þm.: Hverjir fluttu áburðinn inn? Á árinu 1998 fluttu 35 aðilar inn áburð, þar af var Áburðarverksmiðjan hf. með 22 þúsund tonn, en næst kom Áburðarsalan Ísafold hf. með 2.700 tonn. Á árinu 1999 fluttu 38 aðilar inn áburð. Þar af var Áburðarverksmiðjan hf. með 26.000 tonn, en Áburðarsalan Ísafold hf. með 7.768 tonn. Fyrstu níu mánuði ársins 2000 fluttu 29 aðilar inn áburð. Þar af var Áburðarsalan Ísafold hf. með mest magn eða 18.265 tonn og Áburðarverksmiðjan hf. næst með 8.540 tonn.

Hver er verðmismunur erlends og innflutts áburðar? Svarið við því er að ekki liggja fyrir upplýsingar um mismun innlends og innflutts áburðar hvað verð varðar. Verðlagning áburðar er frjáls og því eru engin opinber afskipti af verði eða verðlagningu hans. Auðvitað bera þessi fyrirtæki fyrir sig að þau séu í samkeppni og um þetta ríki ákveðin lögmál og þegar frelsið er komið er þetta kannski leyndardómsfyllra en áður var.