Framleiðsla og sala áburðar

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 15:07:22 (2167)

2000-11-22 15:07:22# 126. lþ. 30.7 fundur 218. mál: #A framleiðsla og sala áburðar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[15:07]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Hér flutti landbrh. nokkuð merkilegar tölur sem snúast um annars vegar framleiðslu áburðar innan lands og sölu innflutts áburðar. Tölurnar hafa snúist við frá 1999. Þá var Áburðarverksmiðjan með 26 þús. tonn, en Ísafold, Kaupfélag Árnesinga, bændur á Suðurlandi, með 7.700 tonn, en nú fyrstu níu mánuði þessa árs snýst talan við þannig að Ísafold, bændur á Suðurlandi, Kaupfélag Árnesinga, eru með 28.400 tonn, en Áburðarverksmiðjan 8.000.

Það liggja fyrir upplýsingar um að kadmíum eins og hér hefur verið talað um hefur mælst í innfluttum áburði með innihaldi frá 24 mg upp í 50 mg pr. kg fosfór sem er náttúrlega mjög alvarlegt mál miðað við það sem hefur gerst í framleiðslunni innan lands og miðað við það sem við erum að segja öðrum þjóðum og Íslendingum, eigin þjóð, að hér sé vistvænn landbúnaður stundaður af mikilli natni, eljusemi og með aðgát. Svo koma þingmenn og segja: Það þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu af því að staðall EES eða ESB er miklu hærri en þær kröfur sem við gerum og þess vegna er allt í lagi að flytja inn erlendan áburð, jafnvel þó að kadmíum sé í slíku magni sem ég gat um áðan.

Ég hef heyrt um þær hugmyndir landbrh. sem hann hefur rætt um vistvæna framleiðslu þar sem hann setur fram að það skuli ekki vera meira en 10 mg kadmíum pr. kg af fosfór í áburði. Það er það hæsta sem ég held að við getum farið upp í þegar við erum segja öðrum þjóðum og Íslendingum að við séum með vistvæna framleiðslu í landbúnaði.

Herra forseti. Ég tel að hér sé mjög alvarlegt mál á ferðinni. Það er mjög alvarlegt ef bændur eru farnir að fylgja svo mjög markaðslögmálinu að það skipti ekki máli hve mikið kadmíum er í hverju kg af fosfór í innfluttum áburði. Það geri ekkert til svo lengi sem það er ódýrara að flytja inn áburð. Við erum í alvarlegri stöðu, herra forseti.