Sjókvíaeldi

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 15:15:22 (2170)

2000-11-22 15:15:22# 126. lþ. 30.8 fundur 227. mál: #A sjókvíaeldi# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[15:15]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Það er náttúrlega mjög mikilvægt að setja skýrar reglur um þetta og sjá til að jafnræði sé milli aðila og ekki síður, ef af verður, að öryggis- og heilbrigðissjónarmið ráði ferðinni.

Hv. þm. spyr: ,,Hvaða reglur telur ráðherra að ætti að viðhafa við úthlutun leyfa til sjókvíaeldis?``

Nefnd sem ég skipaði 23. ágúst sl. til að fara yfir þætti er snerta sambýli kvíaeldis og villtrar náttúru mun m.a. gera tillögur um reglur sem ætti að viðhafa um úthlutun leyfa til sjókvíaeldis, verði það niðurstaðan. Nefndin hefur enn ekki lokið störfum og því er ekki hægt að svara því nú hvaða reglur verða hafðar til viðmiðunar við úthlutun leyfa til sjókvíaeldis, ef verður eins og ég gat um.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: ,,Hvaða gjald hefur verið greitt fyrir leyfi til sjókvíaeldis?``

Aðeins eitt fyrirtæki hefur stundað eldi í sjókvíum undanfarin ár. Það er fiskeldisfyrirtækið Rifós í Kelduhverfi. Fyrirtækið hefur ekki greitt gjald vegna eldisleyfis. Fyrirtækið Silungur hf. fékk í vor tilraunaleyfi til eldis í Stakksfirði, þ.e. að gera tilraun og fara yfir sjókvíaeldið, hver væri þroski fisksins og hvernig það mundi þróast. Fyrirtækið hefur greitt rannsóknar- eða eftirlitskostnað opinberra aðila en ekki sérstakt gjald vegna leyfis til sjókvíaeldis.

Hv. þm. spyr: ,,Hvaða gjald telur ráðherra að ætti að greiða fyrir slíkt leyfi?``

Enn er ekki ljóst hvert verður umfang kvíaeldis hér við land eða hvort slík starfsemi kemur til með að skila arði þannig að starfsemin þoli gjaldtöku. Þó er alveg ljóst að gjaldtaka verður að vera í þeim mæli að hún standi undir nauðsynlegu eftirliti með eldinu. Í Noregi greiða fyrirtæki gjald vegna leyfa til sjókvíaeldis. Þó eru undantekningar hvað þetta varðar og engin gjaldtaka þar sem reynt er að viðhalda byggð og örva atvinnulíf eins og fram kom hjá hv. þm., hún var kannski að spyrja um það í þessari umræðu. Þetta hafa verið viðhorfin í Noregi. Í þeim fáu fjörðum sem hægt væri að stunda í sjókvíaeldi, ég segi fáum fjörðum enda álít ég að þeir séu ekki margir, þá er það bæði mikið atvinnumál en ekki síður byggðamál í leiðinni.

Hv. þm. spyr: ,,Lítur ráðherra svo á að í leyfi til sjókvíaeldis felist leyfi til að nýta sameiginlega auðlind?``

Meðan þeirri spurningu er ekki svarað hvort kvíaeldið verður arðbært hér við land, er ekki hægt að svara spurningu hv. þm., hvort um auðlind er að ræða eða ekki. Verði kvíaeldi leyft á ný í einhverjum fjörðum er ljóst í mínum huga að starfsemin fer fram í landhelgi þjóðarinnar.