Sjókvíaeldi

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 15:20:08 (2172)

2000-11-22 15:20:08# 126. lþ. 30.8 fundur 227. mál: #A sjókvíaeldi# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra þau svör sem hann gaf. Það er ljóst að það er mikill hugur í mörgum hvað varðar fiskeldi, einkum þó laxeldi, hér við Ísland. Í þeim hópi eru stór fyrirtæki í öðrum rekstri, t.d. í sjávarútvegi, og einnig hafa fjárfestar sýnt þessu máli vaxandi áhuga. Það sást best á ráðstefnu sem var haldin um málið á Akureyri um síðustu hegi. Þar voru peningamennirnir mættir þannig að við skulum tala um þetta af þeirri alvöru sem því ber. Við erum að tala um grein sem menn binda miklar vonir við að gefi af sér allmikið fé. Það dylst ekki neinum. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að mótuð verði pólitísk afstaða til úthlutunarinnar.

Ég var ekki, herra forseti, að spyrja um hvað einhver nefnd væri að gera heldur hvað ráðherranum fyndist. Hver er hans pólitíska skoðun? Hvernig finnst honum að standa eigi að þessu? Ef eftirspurnin eftir hlutdeild í auðlind er mikil, ég lít svo á að hér sé beðið um að fá að nýta auðlind vegna þess að hafið hreint og ómengað er vissulega auðlind sem fleiri vilja fá að nýta en komast að, þá verður að spyrja: Þarf ekki ráðherrann að móta reglu um hvernig hann velur? Hverjir fá leyfið ef fleiri en einn vilja?

Sömuleiðis finnst mér að að móta þurfi reglur um það gjald sem greitt verður. Það er ljóst að ef hér verður um stórrekstur að ræða sem gefur af sér mikinn pening eins og menn þekkja frá Noregi og Færeyjum þá verður gerð krafa um að þessir aðilar standi ekki bara undir þeim beina kostnaði sem hlýst af starfseminni heldur líka óbeinum kostnaði og jafnvel, vegna nýtingar þeirra á íslenskri náttúru, greiði þeir meira.

Mér finnst, herra forseti, hæstv. ráðherra skulda okkur svolítið af pólitískum viðhorfum. Hvaða skoðanir vill hann að móti þær reglur sem munu gilda?