Fjárfestingar lífeyrissjóða í erlendum hlutabréfum

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 15:08:33 (2186)

2000-11-27 15:08:33# 126. lþ. 32.1 fundur 138#B fjárfestingar lífeyrissjóða í erlendum hlutabréfum# (óundirbúin fsp.), ÁGunn
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég spyr hæstv. forsrh. um heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í erlendum félögum og vek athygli á því að á vormánuðum voru samþykktar verulegar rýmkanir að þessu leyti sem heimila lífeyrissjóðum að fjárfesta nú fyrir allt að 50% í stað 30% áður.

Herra forseti. Ég sé ekki betur en að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna hafi farið dálítið bratt upp í þessum efnum og nýtt sér heimildir til fjárfestinga mjög hratt, kannski andstætt því sem um var talað á þeim tíma. Mér sýnist líka, herra forseti, varðandi afföll í húsbréfakerfinu, að beint línulegt samband sé milli heimilda lífeyrissjóðanna til þess að fara með peningana á þennan hátt úr landi og affalla í húsbréfakerfinu. Því vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvort til greina komi annaðhvort að takmarka þetta með lagasetningu eða eiga viðræður við forustumenn lífeyrissjóðanna um það að menn gangi heldur hægar um gleðinnar dyr að þessu leyti.