Niðurstöður Haag-ráðstefnunnar um loftslagsbreytingar

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 15:23:03 (2196)

2000-11-27 15:23:03# 126. lþ. 32.1 fundur 140#B niðurstöður Haag-ráðstefnunnar um loftslagsbreytingar# (óundirbúin fsp.), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[15:23]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það er rétt að Íslendingar hafa tekið þátt í vinnunni á loftslagsráðstefnunni í Haag og þar höfum við unnið í svokölluðum regnhlífarhóp ásamt Bandaríkjamönnum, Kanada, Nýsjálendingum, Ástralíumönnum, Rússum og Norðmönnum svo einhver ríki séu tínd til. Það er rétt að þessi ríki eins og mörg önnur ríki stuðla að talsverðri losun á gróðurhúsalofttegundum, Bandaríkjamenn um 25%, ESB tæplega 20% og svona má lengi telja. Íslendingar eru með innan við 0,02% á sinni könnu.

Fyrirspyrjandi spurði hvort ríkisstjórnin mundi telja sig óbundna af Kyoto-samkomulaginu. Það er þannig núna að ekkert iðnríki hefur staðfest eða fullgilt Kyoto-bókunina og það mun trúlega ekkert iðnríki gera það fyrr en menn hafa komist að samkomulagi sem þjóðir heims geta staðið að varðandi þetta mál í heild sinni. Menn vilja sjá útfærsluna áður en þeir fara í það.

Varðandi það hvernig Íslendingar ætla að útfæra mál sín innan lands er ekki hægt að upplýsa það á þessari stundu. Við höfum ekki frekar en önnur ríki útfært það, ég get því ekki svarað því á þessari stundu hvaða skilyrði við munum setja fyrir atvinnugreinarnar.

Hvað varðar síðustu spurningu fyrirspyrjanda um umhverfisverndarsamtök á ráðstefnunni í Haag, þá býst ég við að hv. þm. sé að vitna til viðtals í ríkissjónvarpinu í gær þar sem ég sagði að ég hefði hitt fólk frá umhverfisverndarsamtökum sem ég hefði spjallað við. Það fólk var ekki forsvarsmenn neinna samtaka en það var þarna í einkennisbúningum að dreifa bæklingum og átti ég við það ágætt samtal og það vill leggja mjög mikla áherslu á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa eins og við erum að bjóða upp á.