Niðurstöður Haag-ráðstefnunnar um loftslagsbreytingar

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 15:25:28 (2197)

2000-11-27 15:25:28# 126. lþ. 32.1 fundur 140#B niðurstöður Haag-ráðstefnunnar um loftslagsbreytingar# (óundirbúin fsp.), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[15:25]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Mér þykir svörin heldur rýr. Ég gat ekki skilið síðasta svarið öðruvísi en að umhverfisverndarfólk væri tiltölulega ánægt með tillögur ríkisstjórnarinnar sem þarna voru á ferðinni. En menn hafa brugðist illa við þessum tíðindum frá hæstv. ráðherra. Náttúruverndarsamtök Íslands hafa mótmælt þessu og bent á að þau hefðu samsvarandi stefnu og önnur samtök sem hafa alls ekki skrifað upp á slíka stefnu á neinn hátt.

Mér þykir vont ef ekki er hægt að svara því hvort íslensk stjórnvöld ætli sér að vinna þannig að málum í framhaldi málsins núna að hægt sé að taka á því með öðrum þjóðum að ná mengun niður í heiminum og vera með í því átaki. Þannig þurfa Íslendingar auðvitað að vinna að þeir geti gert það. Til þess þurfa þeir vitanlega að fara varlega í samningum við erlend stóriðjufyrirtæki sem hingað koma og sjá til þess að ábyrgðin liggi þar sem hún á að liggja í málinu.