Niðurstöður Haag-ráðstefnunnar um loftslagsbreytingar

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 15:26:42 (2198)

2000-11-27 15:26:42# 126. lþ. 32.1 fundur 140#B niðurstöður Haag-ráðstefnunnar um loftslagsbreytingar# (óundirbúin fsp.), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[15:26]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég hitti fólk úr umhverfisverndarsamtökum í Haag sem var að dreifa bæklingum. Helstu áhersluatriðin í þeim bæklingum voru að minnka eigi notkun á kolum og olíu en auka notkun á endurnýjanlegaum orkugjöfum. Ég fjallaði um það mál og ræddi við þetta fólk um tillögu okkar, að það væri einmitt það sem fælist í tillögu okkar og því fannst það ágætt. Það er ekki þar með sagt að einhver umhverfisverndarsamtök í heild sinni hafi verið að samþykkja tillögu okkar, þetta var spjall sem ég átti við fólk á staðnum. Enda eru menn að leita eftir nýjum orkugjöfum eins og við höfum upp á að bjóða.

Auðvitað munum við vinna áfram með þjóðum heims að því að hemja losun gróðurhúsalofttegunda. Það höfum við gert og samstaðan er aukast um að ná því máli í höfn en við féllum á tíma í Haag, því miður. Þjóðir heims féllu á tíma í Haag. Þess vegna verður framhaldsfundur í maí þar sem ég vona svo sannarlega að við getum tekist á við þetta verkefni og náð því í höfn.