Innflutningur á fósturvísum úr norskum kúm

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 15:36:30 (2204)

2000-11-27 15:36:30# 126. lþ. 32.1 fundur 141#B innflutningur á fósturvísum úr norskum kúm# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Af því að ég eyddi fyrri ræðu minni í hugsjónirnar og þá möguleika sem ég sé nú í stöðunni, vil ég samt sem áður leggja á það áherslu að hér er engin norsk kýr að koma inn í íslenskt fjós hjá bændum til framleiðslu. Hér verður einungis farið í mjög takmarkaða tilraun á tveimur búum, Stóra-Ármóti og Ármóti, til samanburðar. Síðan er það síðari tíma ákvörðun hvað gert verður. Það er framtíðarinnar að skera úr um það eftir átta til tíu ár þegar tilraunin hefur verið leidd til lykta. Við eigum því ekki að vefja Íslandi eða Noregi inn í þá alvarlegu stöðu sem er í Evrópu heldur eiga þessar tvær þjóðir nú miklu sterkari möguleika og af því að við erum með hreinni náttúru. Við höfum haldið vel utan um heilbrigðismál okkar og þessar tvær þjóðir munu gera það áfram. Noregur er með okkur í fremstu röð.

Ég lýsi því hér yfir enn og aftur að ef eitthvað kemur upp á í þessu ferli verður tilraunin auðvitað stöðvuð.