Arkitektanám á Íslandi

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 15:40:02 (2207)

2000-11-27 15:40:02# 126. lþ. 32.1 fundur 142#B arkitektanám á Íslandi# (óundirbúin fsp.), BH
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[15:40]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Íslenskir arkitektar hafa lengi haft áhuga á því að kennd verði byggingarlist hér á landi en árið 1985 var samþykkt á félagsfundi í Arkitektafélagi Íslands að hefja undirbúning að kennslu í greininni.

Fyrir um tíu árum lá fyrir skýrsla nefndar sem starfaði á vegum menntmrh. þar sem lagt var til að kennsla í greininni yrði hafin hér á landi sem fyrst. Á síðustu tveimur árum hafa Arkitektafélag Íslands og Íslenski arkitektaskólinn staðið fyrir ítarlegri umfjöllun um menntamál arkitekta og hafa samtökin nú komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegast sé að hýsa slíkt nám í sjálfstæðri deild við Háskóla Íslands en í nánu samstarfi við Listaháskóla Íslands.

Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna eru 52 umsækjendur um arkitektanám fyrir næsta námsár og hefur þeim farið ört fækkandi á síðasta áratug. Nýliðun í stéttinni er orðin mjög lítil og stefnir í að svo verði áfram ef ekkert verður að gert. Í ljósi þess að nú liggur fyrir ósk arkitekta um að hýsa slíkt nám í Háskóla Íslands vil ég spyrja hæstv. menntmrh. hvort eitthvað sé að vanbúnaði fyrir menntmrn. að semja við Háskóla Íslands um námsuppbygginu í sjálfstæðri arkitektadeild við háskólann og jafnframt um hver séu áform menntmrh. í þessum efnum.