Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 16:16:00 (2214)

2000-11-27 16:16:00# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[16:16]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson):

Herra forseti. Enn á ný gera ríkisstjórnarflokkarnir tillögur um að stórauka ríkisútgjöldin, nú um 7,8 milljarða kr. á fjáraukalögum. Þar af eru tillögur um 5,7 milljarða kr. hækkun í frumvarpi til fjáraukalaga og breytingartillögur meiri hluta fjárln. um hækkun nema um 2,1 milljarði kr. Þrátt fyrir tillögur um svo mikla hækkun hefur meiri hlutinn ákveðið að láta þann vanda sem við blasir hjá heilbrigðisstofnunum bíða 3. umr. um frumvarpið. Ef mið er tekið af greinargerð Ríkisendurskoðunar um áætlaða rekstrarstöðu heilbrigðisstofnana í árslok 2000 má búast við að ríkisútgjöldin aukist enn um a.m.k. rúmlega 600 millj. kr. Ef miðað er við þær tillögur sem fram hafa komið munu ríkisútgjöld vaxa frá árslokum 1997, þegar þau voru um 135 milljarðar kr., um 72 milljarða kr. því gert er ráð fyrir að útgjöldin á þessu ári verði um 207 milljarðar kr.

Eitt megineinkenni frumvarpsins og breytingartillagna meiri hlutans er hvernig farið er á skjön við lög um fjárreiður ríkisins. Árið 1997 voru samþykkt ný lög um fjárreiður ríkisins sem fólu í sér ýmsar veigamiklar breytingar á framsetningu upplýsinga um fjárhagsstöðu ríkisaðila. Þar eru m.a. skýr ákvæði um hvernig standa skuli að frumvarpi til fjáraukalaga. Á árinu 1999 var í fyrsta skipti lagt fram frumvarp til fjáraukalaga eftir að fyrir lá ríkisreikningur sem gerður var samkvæmt fjárreiðulögunum. Þá benti minni hluti fjárln. á að í veigamiklum atriðum væri ekki farið eftir fjárreiðulögunum.

Ljóst er að í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2000 og í breytingartillögum meiri hluta fjárln. við frumvarpið er enn haldið áfram á sömu braut þótt sjá megi þess merki að ekki sé jafngróflega farið á svig við lagatextann og á síðasta ári. Fjármálaráðherra viðurkenndi í 1. umr. um frumvarpið að ýmsir liðir þess ættu frekar heima í fjárlögum. Þrátt fyrir það eru engar tillögur í frumvarpinu dregnar til baka en þess í stað heldur bætt í af meiri hluta fjárln.

Í V. kafla fjárreiðulaganna er fjallað um frumvarp til fjáraukalaga. Þar segir í 44. gr., með leyfi forseta: ,,Valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þarf til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skal leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga.`` Öðrum óskum um breyttar fjárheimildir skal jafnan vísa til ákvörðunar Alþingis í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár.

Ljóst er að í frumvarpinu og breytingartillögum meiri hlutans er sótt um viðbótarfjárheimildir vegna atvika sem falla ekki undir ákvæði 44. gr. fjárreiðulaganna. Þetta er dæmi um sérkennilegt kæruleysi ríkisstjórnarinnar hvað varðar eðlileg vinnubrögð við stjórn ríkisfjármála.

Fleiri greinar fjárreiðulaganna eru því miður ekki virtar sem skyldi. Í 33. gr. laganna segir, með leyfi forseta: ,,Valdi ófyrirséð atvik því að greiða þarf úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum er fjármálaráðherra að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðherra heimilt að inna greiðsluna af hendi enda þoli hún ekki bið. Fjármálaráðherra er skylt að gera fjárln. Alþingis grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra með frumvarpi til fjáraukalaga.`` Herra forseti. Því miður eru afarfá dæmi þess í fjárln. að eftir þessum ákvæðum sé farið. Þess vegna skortir mjög á æskilega upplýsingagjöf til fjárln. og virðist ríkisstjórnin telja nægilegt að hafa aðeins samráð við meiri hluta nefndarinnar þótt ákvæði laganna séu mjög skýr.

Á síðasta ári gaf meiri hluti nefndarinnar fögur fyrirheit um breytt vinnubrögð og í nefndaráliti meiri hlutans um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 1999 sagði, með leyfi forseta: ,,Gerð verður krafa um að upplýsingar um rekstur stofnana miðað við fjárheimildir liggi fyrir mánaðarlega og að nauðsynlegt talnaefni úr launabókhaldi berist reglulega.`` Enn hefur ekki verið staðið við þessi fyrirheit.

Í mörgum tillögum frumvarpsins er verið að bæta uppsafnaðan halla fyrri ára þrátt fyrir að fjárreiðulögin geri ráð fyrir að slíkt sé gert í fjárlögum. Við afgreiðslu fjárlaga er brýn nauðsyn á að fyrir liggi áætluð fjárhagsstaða stofnana. Það eru óvönduð vinnubrögð að samþykkja fjárveitingu til stofnunar sem miðast við rekstur næsta árs án þess að taka tillit til stöðu hennar um áramót. Taka þarf á vanda stofnana strax. Tilgangslaust er að flytja skuldir stofnana yfir áramót ef ekki liggja fyrir raunhæfar áætlanir um að þær geti ráðið við vandann. Sama gildir um inneignir sem þarf einnig að yfirfara. Ekki er sjálfgefið að þær flytjist milli ára án athugunar. Nauðsynlegt er að við afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga liggi fyrir áætluð útkoma stofnana miðað við fjárheimildir þannig að ekki sé frestað að taka á vandamálum og beðið þess að í óefni sé komið.

Undanfarin ár hefur minni hlutinn bent ítrekað á hve allar áætlanir sem fjárlög byggjast á hafa staðist illa. Enn á ný kemur í ljós að forsendur fjárlaga standast ekki eins og sjá má í töflu sem fylgir áliti 1. minni hluta en í þeirri töflu kemur m.a. fram að frávik eru alveg frá -12,5% og allt upp í tæplega 300% þannig að það er ekki við góðu að búast þegar unnið er út frá slíkum forsendum. En í töflunni kemur eftirfarandi fram:

Frávik í einkaneyslu eru upp á 33,3%, í samneyslu 40%, í fjárfestingum 288,9%, í þjóðarútgjöldum án birgðabreytinga 82,1%, dregið hefur úr útflutningi vöru og þjónustu upp á 52,6% en aukning í innflutningi vöru og þjónustu er upp á 147,4%, frávik í landframleiðslu eru upp á 27,6%, í vísitölu neysluverðs 22,2%, í ráðstöfunartekjum á mann 16,9%, og í kaupmætti ráðstöfunartekna -12,5%.

Herra forseti. Ýmsar blikur eru á lofti í efnahagslífi þjóðarinnar og má m.a. nefna mikinn viðskiptahalla og stórauknar skuldir heimilanna. Viðskiptahallinn heldur áfram að aukast og samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar stefnir í að hann verði í árslok 2000 rúmir 54 milljarðar kr. eða 8% af landsframleiðslu. Á árinu 1999 nam hallinn 40,4 milljörðum kr. eða 6,5% af landsframleiðslu. Þá halda skuldir heimilanna áfram að aukast. Í lok ársins 1999 námu þær 510 milljörðum kr. en um mitt ár 2000 voru þær samkvæmt uppgjöri Seðlabankans 560 milljarðar kr. Hækkunin frá áramótum er því 50 milljarðar kr. eða um 10%. Hlutfallslega hafa skuldir heimilanna við innlánsstofnanir hækkað mest á þessu tímabili eða um 23 milljarða kr. sem eru tæp 18%. Hægt hefur á hækkun skulda við Íbúðalánasjóð á fyrri hluta þessa árs miðað við undanfarin ár og nemur hækkunin frá áramótum 6%. Ef skuldir hækka í sama takti á síðari helmingi ársins og þeim fyrri munu þær verða rúmlega 600 milljarðar kr. í árslok og hækkunin yfir árið 15--20%. Gangi það eftir blasir við að hlutfall skulda af ráðstöfunartekjum aukist verulega.

Ljóst er að þetta fjáraukalagafrumvarp sýnir ekki nema hluta þess sem hefur raunverulega gerst hjá ríkisaðilum á árinu. Þó er margt áhugavert að sjá en það sem ekki sést er mun áhugaverðara. Ljóst er að t.d. heilbrigðismálin bíða 3. umr. og ekki hefur verið gerð grein fyrir öðrum stórum málaflokkum.

Áður hefur verið minnst á þann vanda að allar forsendur fjárlaga virðast mjög ótraustar en því til viðbótar virðist áætlunargerð margra framkvæmda vera óraunhæf. Hér verða aðeins nefndar tvær framkvæmdir ársins í þessu samhengi. Annars vegar eru framkvæmdir við endurbætur Safnahússins við Hverfisgötu. Gert var ráð fyrir að heildarkostnaður ársins yrði 95 millj. kr. en nú er reiknað með að hann verði 100 millj. kr. hærri eða 195 millj. kr. Hins vegar má nefna framkvæmdir við innréttingar og kaup á búnaði í húsnæði Alþingis í Austurstræti 8--10 og 10A. Samkvæmt fjárlögum ársins 2000 eru 113 millj. kr. ætlaðar til þessara framkvæmda en samkvæmt breytingartillögum meiri hlutans vantar nú 83 millj. kr. til að ljúka þeim.

Herra forseti. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir á fundum fjárlaganefndar hafa ekki fengist fullnægjandi skýringar á miklum mun á milli áætlana og stöðunnar nú. Því er nauðsynlegt að fram komi fullnægjandi skýringar á því hvað fór úrskeiðis í þessum tilvikum, hvernig eftirliti með framkvæmdunum var háttað og hvernig staðið var að ákvörðunum um framvindu þeirra. Ekki er síður athyglisvert að bera þá niðurstöðu saman við þau ákvæði sem fram koma í 44. gr. fjárreiðulaganna.

Herra forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir áliti 1. minni hluta fjárln. Undir nál. rita Einar Már Sigurðarson, Gísli S. Einarsson og Össur Skarphéðinsson.