Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 16:26:32 (2215)

2000-11-27 16:26:32# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[16:26]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að gera smáathugasemdir við þá stærðfræðileikfimi sem hérna er sýnd. Ef við gerum ráð fyrir því í áætlun að aukning á einkaneyslu verði 3% en hún reynist síðan 4% þá er munurinn 1%, ekki 33,3%. (Gripið fram í.) Ef samneyslan hefur hækkað um 1% þá hefur hún bara hækkað um 1%. Menn verða að gera sér grein fyrir þessu. Ef menn reikna prósentur af prósentunum, þá eru menn bara að leika sér. Það segir enga sögu, ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er 1% frávik í samneyslunni en ekki 40%. Þetta verða menn að vita nema menn hafi mjög gaman af því að leika sér svona með tölur sem hafa enga þýðingu.

Hins vegar vil ég taka undir það sem hv. þm. sagði að vissulega er ástæða til þess að hafa áhyggjur af sumum þeim liðum sem hér er verið að kynna og við höfum farið fram úr miðað við það sem ætlað var í fjárlögunum. Rétt er að það komi fram að meiri hluti fjárln. deilir þeim áhyggjum að sjálfsögðu með minni hlutanum. Við getum tekið dæmi og það er bara rétt að gera það.

Þegar Alþingi Íslendinga fer í fjárveitingum sínum og fjárfestingum 83 milljónir fram úr því sem ætlað er þá er það mikill vansi. En ég veit því miður ekki til þess, herra forseti, að fjárln. þingsins hafi nein vopn. Við erum berhentir í þessu. Við erum bara vinnunefnd eins og aðrar nefndir þingsins. Það er vonandi og ég ætla að taka undir það með hv. þm. að þingið, sem er undir stjórn forsetanna, sái sér sóma í því í framtíðinni að láta þetta ekki gerast.