Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 16:52:16 (2220)

2000-11-27 16:52:16# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[16:52]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. v. ræddi, eins og hv. 4. þm. Austurl., nokkuð um fjárlagagerðina og það form og áætlanagerð sem við förum eftir. Hv. 5. þm. Norðurl. v. talaði um að full þörf væri á því að fjárln. ynni allt árið. Ég kannast ekki við annað en fjárln. vinni allt árið og vísa því algjörlega á bug að hún geri það ekki. Við tókum það upp sérstaklega núna að kalla þau ráðuneyti til okkar að vori þar sem við sáum að stofnanir voru að fara fram úr. Það var í fyrsta skiptið sem við gerðum það í ár. Við höfum haldið reglulega fundi í sumar og ég er manna fúsastur til þess að auka vinnu fjárln. til þess að taka á áætlanagerð og bæta vinnubrögðin við fjárlagagerð og fjáraukalagagerð.

Hins vegar er ég ósammála því sem kom fram í ræðu hv. þm. að það eigi að leggja fram fjáraukalög í rennu yfir allt árið. Fjáraukalög eiga ekki að vera nema neyðarventill. Við eigum að ná þeim vinnubrögðum að þau verði ekki nema neyðarventill og leiðin til þess er ekki að fjölga frumvörpunum þannig að stofnanir geti reiknað með því að lagt verði fram fjáraukalagafrv. að vori til þess strax þá að bæta við því sem fram yfir er. Mergurinn málsins er að bæta áætlanagerðina við fjárlagagerð þannig að fjáraukalagafrv. verði minna í sniðum.