Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 16:56:20 (2222)

2000-11-27 16:56:20# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[16:56]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er fús til þess að ræða við framkvæmdarvaldið um að bæta upplýsingagjöf til fjárln. um þær umsóknir um fjárveitingar sem koma fram á fjáraukalögum. Um það held ég að við þurfum ekkert að deila hér. En ég stend við allt sem ég sagði í fyrra andsvari mínu að öðru leyti.

Ég hafði ekki tíma til að koma að einu atriði í ræðu hv. þm. áðan. Hann segir að sendiráð í Japan séu kaldar kveðjur til öryrkja og fleiri aðila í samfélaginu. Mér finnst dálítið seint í rassinn gripið að tala um þetta núna. Þverpólitískar þáltill. voru fluttar um þetta frá 1992--1998. Í einni slíkri tillögu segir, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir opnun sendiráðs í Kína í ársbyrjun 1995 telja flutningsmenn þessarar tillögu enn brýna hagsmuni mæla með því að opnað verði íslenskt sendiráð í Japan, bæði vegna mikilvægis tengsla Íslands og Japans og einnig vegna vaxandi samskipta og markaðsmöguleika í öðrum fjölmennum ríkjum Austur-Asíu.``

Í framhaldi af þessu var samhljóða álit í þinginu að opna þetta sendiráð. Menn hafa sjálfsagt ekki búist við að það kostaði neitt. Hver ætli sé 1. flm. að þessari tillögu? (Gripið fram í: Hver var það?) Það er hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og hv. þm. Össur Skarphéðinsson skrifar upp á þessa tillögu. Það var þverpólitísk samstaða um þessa tillögu. En menn hafa sjálfsagt ekki hugsað að þetta kostaði neitt og nú standa menn hér upp og tala um að það séu kaldar kveðjur til öryrkja þó að þetta sé eins skiptis framlag til þess að kaupa eign í Japan. Ég vísa svona málflutningi algjörlega á bug og sem út í hött og mér finnst hann ekki til mikillar fyrirmyndar.