Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 16:58:27 (2223)

2000-11-27 16:58:27# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[16:58]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég rakti í ræðu minni er sjálfsagt að efla utanríkisþjónustuna og mikilvægt getur verið að stofna sendiráð í Japan.

Herra forseti. En ef hv. formaður fjárln. lítur svo á að þetta sem hér er verið að leggja til, nærri milljarður kr. til sendiráða, eigi að koma á fjáraukalögum en ekki á eðlilegan hátt í fjárlagavinnu þá er eitthvað að, herra forseti, þá er bara eitthvað að. Og einmitt þarna er kannski lýsandi mein. Þetta getur verið hið þarfasta og merkilegasta mál. En slík vinnubrögð að við þurfum að skipuleggja okkar utanríkisþjónustu þannig, án þess að neitt stríð sé skollið á, að það þurfi að setja tæplega milljarð þar í á fjáraukalögum, herra forseti, samræmast að mínu mati alls ekki lögum um fjárreiður ríkisins. Þarna er a.m.k. farið afar mikið á skjön við þau og á þetta ekkert skylt við það hversu mikilvægt er að efla utanríkisþjónustuna.

Önnur mikilvæg mál í samfélaginu líða líka fyrir fjárskort og þess vegna er engin ástæða til að liggja á þeim og nefna þau þegar verið er að grípa til ráðstafana eins og hér er verið að gera, hversu nauðsynlegar sem þær kunna að vera.