Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 17:54:00 (2230)

2000-11-27 17:54:00# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[17:54]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. innti eftir kostnaði við þúsund ára afmælishátíðarhöld vegna kristnitökunnar og kostnað vegna landafundanefndar. Ég hef í fljótheitum aflað mér upplýsinga um framlög til þessara hluta. Fyrst voru lagðar fram til þúsund ára afmælis kristnitökunnar árið 1998 10,2 millj., 1999 27 og árið 2000 324,5. Á fjáraukalögum eru 19,2. Einhver kurl eiga eftir að koma til grafar á næsta ári því að þessum hátíðahöldum lýkur um páska í vor.

Landafundanefnd fékk 130,7 millj. árið 1999, 195,5 árið 2000 og 16,9 á fjáraukalögum. Þarna er um miklar fjárhæðir að ræða. Hins vegar er, eins og kom fram í ræðu hans, um eins skiptis framlög að ræða. Þetta fellur nú niður.

Varðandi heimssýninguna þá er ljóst að á fjáraukalögum er uppgjör á henni. En ég vil geta þess að heimsóknir í íslenska skálann voru gífurlega margar og mun fleiri en í öllum skandinavísku skálunum til samans. Við vonum auðvitað að þessi starfsemi og þessar miklu fjárhæðir sem hefur verið varið til þessara hluta skili sér í auknum ,,prófíl`` Íslands, ef svo má að orði komast, og auknum ferðamannastraumi hingað til lands. En ég tek auðvitað undir það að hér hefur miklu verið til kostað.