Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 18:53:58 (2243)

2000-11-27 18:53:58# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[18:53]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög athyglisvert að heyra hv. 7. þm. Reykv. endurtaka hér hvað eftir annað að draga beri úr útgjöldum ríkisins. Við skulum þá athuga hvernig útgjöld ríkisins eru samansett. Langstærsti hlutinn af útgjöldum ríkisins eru heilbrigðismál, næst koma menntamál, félagsmál, samgöngumál og vextir. Ég mundi gjarnan vilja fá nákvæmari tillögur um hvar ætti að lækka útgjöld í þeim málaflokkum. Ég hef því miður ekki heyrt nema almennar yfirlýsingar. Þegar kemur til stykkisins hafa ekki verið mótaðar tillögur um þetta.

Ég hef legið undir harðri gagnrýni fyrir tillögur sem ég stóð að og gerði í tekjustofnanefnd um fjárhag sveitarfélaga. Við eigum eftir að taka um það harða umræðu og ekki er verið að tala um að draga úr ríkisútgjöldum þar eða á öðrum sviðum. Satt að segja hafa ríkisútgjöld verið aukin til ýmissa mála, til heilbrigðismála, menntamála, félagsmála og samgöngumála. Það eru þeir málaflokkar sem menn hafa verið að fást við. Það er athyglisvert að heyra núna að lækka eigi útgjöld til þeirra málaflokka. Ég vona að það komi fram þegar við tökum fjárlagaumræðuna síðar í vikunni hvaða málaflokka menn vilja þá lækka.