Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 18:55:51 (2244)

2000-11-27 18:55:51# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[18:55]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég var að rekja það að í upphafi þessa kjörtímabils var alveg ljóst að hér væri fram undan erfið þensla. Það var líka alveg ljóst að besta ráðið til þess að sporna gegn henni væri að taka á ríkisútgjöldum. Það var þess vegna sem Samfylkingin lagði það til í upphafi kjörtímabils samkvæmt þeirri reynslu sem hv. þm. þekkir líka að alltaf er þægilegast og auðveldast að taka á slíku í upphafi kjörtímabils.

Herra forseti. Það er vanur maður sem hér talar. Ég studdi ríkisstjórn sem komst til valda 1991 sem þurfti að gera það með ákaflega miklum erfiðismunum, en hún gerði það samt og það lagði grundvöllinn m.a. að því góðæri sem ríkir í landinu enn þá. Hv. þm. á auðvitað að vita að ég hef áður gengið í gegnum þá eldskírn sem felst í því að taka á ríkisútgjöldum og það tókst bærilega. Sú reynsla kenndi mér líka að langhagkvæmast væri að fara þá leið að gera það í upphafi kjörtímabilsins. Það er einfaldlega þannig.

Er eitthvað óeðlilegt, herra forseti, þegar menn ræða ríkisfjármál að menn hafi áhyggjur af því hvernig útgjöld ríkisins þróast? Við lögðum fram í fyrra í nefndaráliti tölur sem sýndu að á fimm ára tímabili, frá 1994 til loka ársins 1998, jukust útgjöld ríkisins um 54 milljarða á föstu verðlagi. Auðvitað felst ákveðin hætta í slíkri þróun fyrir samfélagið því að sloti góðærinu situr það uppi með útgjaldaaukninguna en ekki nægar tekjur til að standa undir þeim. Ég þarf ekki að mála það fyrir hv. þm. sterkum litum hversu gríðarlega erfitt verður þá að grípa til sterkra aðhaldsaðgerða. Þessir háu herrar eru búnir að missa tækifærið.