Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 19:07:21 (2247)

2000-11-27 19:07:21# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[19:07]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki þægilegt þegar menn nota tímann til andsvara í að setja mönnum fyrir svona langar spurningar um hvað þeim finnist um hitt og þetta. Ég hef ekki nema tvær mínútur til að ræða það.

Ég hélt að ég hefði sagt það bæði nú og svo oft áður að mér finnst það ekki vansalaust þegar æðstu skrifstofur ríkisins, hvort heldur ráðuneytanna, Alþingis eða forseta lýðveldisins, geta ekki agað sig að fjárlögum. Mér finnst það ekki vansalaust. Þá þurfa að vera til staðar ástæður sem eru ófyrirséðar, eins og alltaf getur komið fyrir, og þannig gera fjárreiðulögin ráð fyrir þessu. Þarna er því um ákveðið agaleysi að ræða og gegn því agaleysi verðum við að berjast vegna þess að við munum ekki ná neinum árangri í að fá aðra stjórnendur ríkisstofnana til þess að virða þessi lög ef æðstu stofnanirnar gera það ekki. Við vitum að þá mun allt fara í vandræði hjá okkur. Þess vegna vil ég ítreka þetta og þetta á að vera alveg ljóst. Ég ætla ekki að svara út af fyrir sig fyrir einstök ráðuneyti eða einstök verkefni. Þá þyrfti ég að tala í allt kvöld. En þetta er sjónarmið sem ég hélt að öllum í fjárln. og flestum á Alþingi sem hafa fylgst með þessari umræðu væri mætavel kunnugt og ég vissi ekki til annars en að við hefðum fulla samstöðu um þetta viðhorf, bæði við sem styðjum ríkisstjórnina svo og stjórnarandstaðan.