Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 19:15:26 (2251)

2000-11-27 19:15:26# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[19:15]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Engin ástæða er til annars en segja það eins og er og ég hef margsinnis farið yfir það. Það er ákveðin lausung í fjáraukalögunum. Alþingi á þar langstærsta hlutann. Við skulum segja frá því eins og það er að við eigum óskaplega erfitt með að gera áætlanir, sérstaklega um endurbyggingu gamalla húsa. Hvergi förum við meira fram úr áætluninni en við endurbyggingar. Það fara tugir milljóna hingað og þangað og þetta gerist nærri því á hverju einasta ári. Við skulum hafa það í huga.

Herra forseti. Það er fyrst og fremst tvennt sem hefur valdið vandræðum á launamarkaði. Ég tel að samninganefnd ríkisins í launamálum hafi gengið lengra í hækkun launa en hinn almenni launamarkaður og það er ekki hægt til langs tíma. Ríkisstarfsmenn geta aldrei fengið meiri og betri kjör og meiri hækkanir launa sinna en hinn almenni maður á launamarkaðnum vegna þess að atvinnulífið verður að geta staðið undir þeim kjarabótum sem eiga sér stað í þjóðfélaginu. Ég tel líka að sú hávaxtastefna sem leiddi til hærra gengis en eðlilegt var leiddi til kaupmáttar umfram það sem samið var um. Það kemur í kollinn á mönnum aftur. Það var óvarleg pólitík. Ég hef látið það í ljós síðustu 2--3 árin. Þess vegna finnst mér lítið koma til ráðgjafans sem gaf ráðin daginn sem hann hætti.