Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 19:17:28 (2252)

2000-11-27 19:17:28# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[19:17]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segir að hann gefi lítið fyrir ráðgjafa Seðlabankans. Hvað gefur hv. þm. mikið fyrir þann sem er æðsti yfirmaður Seðlabankans? Það er hæstv. forsrh. Dettur hv. þm. í hug eitt einasta augnablik að Seðlabankinn, sem er ekki sjálfstæður, sé að hækka vexti án þess að það sé borið undir hæstv. forsrh.? Að sjálfsögðu ekki. Hvers vegna ætti hæstv. forsrh. að vilja sjá bankann hækka vexti? Vegna þess að hann er að berjast við að halda verðbólgunni í skefjum. Hæstv. forsrh. hefur mörgum sinnum spáð því ranglega að nú fari verðbólgan að síga niður. Hið öfuga hefur alltaf gerst. Hún er miklu frekar á leiðinni upp. Þegar við stöndum andspænis þeim slaka sem hefur verið á ríkisfjármálunum til þess að halda verðbólgunni í skefjum er eina ráðið að reyna að halda genginu háu.

Það er þessi stefna sem forsrn. hefur í reynd stýrt og þegar hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kemur hingað og ræðst á Seðlabankann er hann í reynd að ráðast á vaxtastefnu hæstv. forsrh. Svo einfalt er það nú.