Málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 13:41:30 (2259)

2000-11-28 13:41:30# 126. lþ. 33.94 fundur 146#B málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[13:41]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er ekki ofmælt að það horfir ákaflega þunglega í þessari erfiðu deilu, ekki síst þegar fyrir liggur að hæstv. menntmrh. kemur hingað og segist í raun ekkert ætla að gera til þess að liðka fyrir í deilunni.

Herra forseti. Fast að tuttugu þúsund ungmenni mæla göturnar vegna verkfallsins og allt bendir til þess að önnin sé ónýt. Veturinn allur er kannski ónýtur. Og við vitum að sum þeirra munu flosna endanlega upp frá námi og við vitum að sum þeirra munu því miður líka lenda á refilstigum. Foreldrarnir eru kvíðnir og áhyggjufullir. Svo kemur hæstv. menntmrh. og segir: ,,Ég vil ekki lenda í skítkasti``, eftir að hafa hlustað á tiltölulega hógværa ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar.

Herra forseti. Í samningum þarf að skapa traust til þess að ná lendingu. Hvað hefur hæstv. menntmrh. gert til þess að skapa þetta traust? Hann hefur ráðist aftur og aftur að kennurum með hnýfilyrðum. Það sem hann hefur gert er einfaldlega að hann hefur verið að storka þeim. Hæstv. menntmrh. hann hefur í reynd hagað sér eins og hvumpinn fíll í glervörubúð og komið eins og sprengja inn í þessa samninga.

Ég verð líka að spyrja, herra forseti: Er það tilviljun að ríkisstjórnin og sérstaklega hæstv. menntmrh. sýna engan samkomulagsvilja í þessari erfiðu deilu á sama tíma og ríkisstjórn leggur það til í fjárlagafrv. í fyrsta skipti í sögunni að komið verði upp einkareknum framhaldsskóla? Nei, ég tel ekki að það sé nokkur tilviljun. Það er erfitt að túlka algert viljaleysi ríkisstjórnarinnar til að ganga til samninga í þessari erfiðu deilu öðruvísi en sem einbeitta viðleitni til að ýta undir einkavæðingu framhaldsskólans.

Ríkisstjórnin segir að ekki sé hægt að semja því að kennarar heimti 70%. Auðvitað verður aldrei samið um nein 70%. En hvar í veröldinni hafa menn gert samninga þar sem gengið er að öllum kröfum annars aðilans? Að sjálfsögðu hvergi.

Í samningum finna menn málamiðlun og millilendingu. Þess vegna er þessi málflutningur ríkisstjórnarinnar í garð kennara óheiðarlegur. Staðreyndin er sú að framhaldsskólinn er ekki samkeppnishæfur um fólk og þess vegna þarf að hækka laun kennara og samhliða þarf að stokka upp framhaldsskólann.