Málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 13:45:42 (2261)

2000-11-28 13:45:42# 126. lþ. 33.94 fundur 146#B málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[13:45]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Verkfall framhaldsskólakennara hófst þann 7. nóvember og hefur nú varað í þrjár vikur. Þegar er ljóst að þessi önn verður varla unnin upp en það alvarlegasta er að fjöldi nemenda hefur þegar horfið frá námi og óvíst hvernig þeim nýtist önnin. Eðlilegt er að framhaldsskólakennarar miði laun sín við samninga sem ríkið hefur gefið fordæmi fyrir með samningum sínum, t.d. við Bandalag háskólamanna. Framhaldsskólakennarar hafa dregist verulega aftur úr í launakjörum ríkisstarfsmanna með sambærilega menntun og ábyrgð í starfi. Aðrar ríkisstofnanir og einkafyrirtæki sækjast í vaxandi mæli eftir að ráða framhaldsskólakennara til starfa, enda er um vel menntaða og hæfa starfsmenn að ræða. Nauðsynlegt er að kennarastarfið sé betur launað en nú er gert svo að tryggt sé að hæfir kennarar fáist til starfa á næstu árum.

Núverandi ástand bitnar á nemendum og skipulag þeirra í náminu raskast. Fullvíst má telja að kennarar geri ekki ráð fyrir að kröfur þeirra náist fram að fullu frekar en kröfur annarra í kjarasamningum. Samningar verða ávallt bil beggja að lokum. Hitt má til sanns vegar færa að ríkið hefur ekki sýnt samningsvilja í viðræðum sínum við kennara til þessa.

Nú virðist sú staða jafnvel í sjónmáli að ekki verði samið á þessu ári og spurt er: Er verið að gefa viðvörun til annarra stétta um hver verði stefna stjórnvalda í kjaramálum næstu missirin? Á að fórna hagsmunum nemenda í þeim tilgangi og eru þeir aukastærð í málinu að mati stjórnvalda?

Góð menntun er lykillinn að framtíðinni og til að tryggja góða menntun verðum við Íslendingar að setja kennara og kjör þeirra í það horf að þeir fáist í störfin og festa skapist á þessum mikilvæga vettvangi svo að bókvitið verði í askana látið í næstu framtíð.