Málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 13:55:43 (2266)

2000-11-28 13:55:43# 126. lþ. 33.94 fundur 146#B málefni nemenda og staðan í kjaradeilu framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[13:55]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það hefur komið enn betur í ljós, bæði í þessum umræðum hér í dag og í þjóðfélaginu að undanförnu, að krafa kennara um rúmlega 70% launahækkun hefur ekki hljómgrunn. Hún hefur ekki hljómgrunn í þessum sal, hún hefur ekki hljómgrunn úti á meðal þjóðarinnar. Því fyrr sem kennararnir gera sér grein fyrir þessu, því fyrr verður hægt að leysa þessa deilu.

Ég tel lausn deilunnar felast í nokkrum þáttum, að sjálfsögðu í beinum launahækkunum að einhverju leyti en einnig í skipulagsbreytingum, sem miða að því að gera starf skólanna sveigjanlegra, miða að því að auka sjálfstæði skólanna og fá kennarana til þess að leggja sitt af mörkum til að bæta skólastarfið í landinu.

Ég tel vel hægt að leysa þetta mál á forsendum af þessu tagi á tiltölulega stuttum tíma ef báðir aðilar einsetja sér það. Ríkið er tilbúið til þess fyrir sitt leyti en kennararnir þurfa fyrst að koma sér niður á jörðina, sætta sig við að kröfur þeirra hafa ekki þann hljómgrunn sem þeir óska og setjast síðan að samningaborði með breyttu hugarfari.