Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 15:28:52 (2285)

2000-11-28 15:28:52# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., Frsm. 2. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[15:28]

Frsm. 2. minni hluta félmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var nú miklu meira en andsvar við minni ræðu því ég ræddi aðeins einn þátt þessa máls sem hv. þm. gerði hér að umtalsefni, þ.e. ónóga úrlausn hvað varðar tekjuforsendur sveitarfélaganna. Ég kom hér ekkert inn á spurninguna um skattahækkanir og var heldur ekki að kvarta sérstaklega undan ónógu aðhaldi í ríkisrekstri. Það kann vel að vera að í einhverjum tilvikum hafi félagar mínir úr öðrum áttum í stjórnarandstöðunni gert það í umræðum um þingstörfin fyrr í dag. En það var alla vega ekki inntak minnar ræðu. Það var fyrst og fremst einn þáttur þessa máls og hann rakti ég og rökstuddi ítarlega.

Það sem vakti aðallega fyrir mér var að sýna fram á og draga það fram, sem ég held að sé staðreynd sem hv. þm. sem og allir aðrir verða að taka mið af, að það hefur verið mikið misgengi í afkomuþróun ríkissjóðs annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar nú um langt árabil. Það sem ég gagnrýni er að menn á aðra hliðina monta sig af því að skila milljarðatuga afgangi af ríkissjóði en neita að horfast í augu við það að skuggahliðin á því máli er langvarandi hallarekstur og skuldasöfnun sveitarfélaganna.

Af því ég veit að hv. þm. hefur komið á hestbak og jafnvel teymt á eftir sér trússhest, þá heitir þetta að það hallist á klyfjunum. Það er það sem hefur gerst. Það hefur snarhallast á klyfjunum þarna sveitarfélögunum í óhag og það þarf að rétta af. Og við þær aðstæður væri langeðlilegast, ef menn vilja ekki hafa áhrif á skattstigið að öðru leyti, að færa til tekjur. Þá snerist málið um það. Svo skulum við ræða hversu miklir skattamenn við erum og hversu mikils fjár við erum tilbúnir til að afla til samneyslunnar og ég er ekki viss um að við yrðum þá endilega ákaflega ósáttir, ég og hv. þm. Enn eitt í því dæmi hefur stjórnarandstaðan hins vegar bent á og það er að gefin voru tiltekin vilyrði og fyrirheit hvað varðar skattamál í tengslum við gerð kjarasamninga og spurningin er hvort ríkisstjórnin er ekki að bregðast slíkum loforðum sem þarf að skoða sérstaklega. Ég hygg því að ágætt samhengi (Forseti hringir.) sé í þessum málflutningi þegar öllu er á botninn hvolft og að hv. þm. eigi að leyfa þessum umræðum (Forseti hringir.) að fara fram, bæði um þetta mál og hið næsta, áður en hann fer að kveða upp harða dóma (Forseti hringir.) í þessum efnum.

(Forseti (ÍGP): Ég minni hv. þingmann á að virða tímamörk.)