Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 15:34:55 (2288)

2000-11-28 15:34:55# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[15:34]

Frsm. meiri hluta félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get að sumu leyti tekið undir að það var óheppilegt hversu seint þetta mál kom inn í Alþingi. Við hefðum mátt hafa aðeins betri tíma til þess að fjalla um málið og hafa það fyrir framan okkur. Hins vegar fór fram mjög mikil vinna í tekjustofnanefndinni en það tókst ekki að ljúka niðurstöðum hennar fyrr en raun bar vitni. Varðandi það sem hv. þm. nefndi að það væri ekki mjög merkileg niðurstaða sem hefði komið út úr tekjustofnanefndinni, þá fullyrði ég að það er efnismikil niðurstaða sem kemur fram í skýrslunni og út frá þeirri niðurstöðu er þessi tillaga komin fram.

Varðandi vinnubrögð í félmn. þá tókst okkur að kalla eftir álitum þeirra sem við vildum fá álit frá. Okkur gafst nægilegur tími til efnislegrar umræðu um málið þannig að ég neita því algerlega að þar hafi verið einhver vanhöld á. Ég held að við höfum gefið okkur nægilegan tíma til þeirrar efnislegu umræðu. Ég hef ekki orðið vör við að hv. þingmenn í félmn. hafi kvartað yfir því að hafa ekki fengið tíma til efnislegrar umræðu um málið.

Varðandi þær tillögur sem komu frá Félagi ferðaþjónustubænda um undanþágur þá voru þær jafnframt ræddar í nefndinni. Reyndar komu tillögur um fleiri atriði sem hugsanlega væri ástæða til þess að veita undanþágur frá. En skemmst er frá því að segja (Forseti hringir.) að fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga lögðust eindregið gegn þessu.