Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 15:39:27 (2290)

2000-11-28 15:39:27# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[15:39]

Frsm. meiri hluta félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það liggja fyrir mikil gögn í vinnu tekjustofnanefndarinnar og þess vegna tók þetta ákveðinn tíma. Ég held að við höfum haft um það bil mánuð til þess að fjalla um þetta í Alþingi. Eins og ég sagði áðan hefði það kannski mátt vera lengri tími en ég held að okkur hafi gefist ágætur tími til þessarar umfjöllunar. Við hefðum auðvitað getað, eins og með öll góð mál, rætt það mjög lengi, vel og ítarlega.

Varðandi það hversu mikið samráð er haft við Samband ísl. sveitarfélaga þá er talið gott að hafa mikið og gott samráð við sambandið í samskiptum þessara tveggja stjórnsýslustiga og það hefur verið gert í þessu máli. Sambandið átti fulltrúa í tekjustofnanefndinni og fulltrúar sambandsins komu tvisvar til fundar við félmn. í umfjöllun félmn. um málið.

Af því að vísað var til þess að ekki hefði verið ástæða til að hafa samráð við Samband ísl. sveitarfélaga um niðurstöðu ferðaþjónustu bænda og afstöðu þeirra, þá kom það jafnframt fram í nefndinni að fleiri hafa áhuga á því að fá undanþágu frá fasteignagjaldaálagningu þegar svo háttar til að húsnæði er nýtt aðeins skamman tíma á ári. Þar var nefnd bændagisting, veiðihús, fiskverkunarhús og sláturhús sem svo háttar til um að aðeins eru notuð fáa (Forseti hringir.) mánuði á ári. Einnig voru nefnd bílastæðahús en reyndar í öðru samhengi. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Þetta teljum við að sé nauðsynlegt að ræða í heildarsamhengi.

(Forseti (ÍGP): Forseti minnir hv. þingmann á að virða tímamörk.)