Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 16:01:04 (2294)

2000-11-28 16:01:04# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[16:01]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. veit hvað gerist á heimili þegar tekjur duga ekki fyrir útgjöldum, þegar t.d. útgjöldin hafa vaxið of mikið vegna þess að menn fóru offari í fjárfestingum. Þá verða menn hreinlega að takmarka fjárfestingar og spara á öllum sviðum. Þetta er það sem gerist hjá öllum heimilum í landinu. Það gerist líka þegar sveitarfélögin hækka fasteignagjaldið á heimilið. Nákvæmlega það sama gerist hjá fyrirtækjum. Þegar tekjur duga ekki fyrir útgjöldum þá verða menn að spara og takmarka fjárfestingar sínar.

Mikið hefur verið rætt um hvað sveitarfélögin fái greitt fyrir þau verkefni sem þau hafa yfirtekið. Fulltrúar sveitarfélaganna hafa samið við ríkisvaldið um greiðslur vegna þessarar yfirtöku. Ef þau hafa samið af sér verður náttúrlega að fara í gegnum þá útreikninga. Það hefur verið gert og það er verið að bæta yfirtökuna aftur og aftur þannig að ríkissjóður er að borga þeim aftur og aftur. Þetta er sífelld umræða.

En ég held að vandinn sé fjárfestingar sveitarfélaganna. Þau hafa hreinlega farið offari. Ég get nefnt þó nokkur dæmi um að sveitarfélög hafi verið mjög glannaleg í fjárfestingum, sérstaklega í stórum fjárfestingum eins og íþróttamannvirkjum og slíku sem engum manni dytti í hug að reisa ef sýnt yrði svart á hvítu hver kostnaðurinn er á hvern íbúa. Þegar kostnaðurinn kominn í hálfa milljón á hverja fjölskyldu fyrir eitt íþróttahús er það orðið ansi glannalegt.