Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 17:04:24 (2303)

2000-11-28 17:04:24# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[17:04]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Einu má þó treysta hér að ríkisstjórnin ætlar að hækka skatta, um það þurfum við ekki að deila.

Hv. þm. hafði um það orð að það væri mjög merkilegt framtak af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans að lækka fasteignaskatta. Það er að sönnu hárrétt. Við höfum tekið undir það. En við andmælum því hins vegar þegar Skagamenn fá sendan reikninginn og lækkaðan fasteignaskatt og í sama bréfi er tilkynning um að útsvarið hækki um sömu upphæð en þannig er að þessar upphæðir standast á. Þær eru báðar í kringum 1.200 millj. kr. eða þar um bil. Að vísu er útsvarshækkunin ívið meiri en lækkun fasteignaskatts.

Auðvitað veit hv. þm. miklu betur en hann vill vera láta þegar hann ræðir um málflutning Samfylkingarinnar. Það fer honum ekki vel að vera með svona ódýra útúrsnúninga því að hann er yfirleitt mjög málefnalegur og beinskeyttur í ræðustól. Það er alveg hárrétt að formaður Samfylkingarinnar lét þess getið mitt í miðju góðærinu fyrir einu og hálfu ári, ætli það hafi ekki verið fyrir 18 eða 24 mánuðum, að hugsanlegt væri að skoða þann valkost til að draga úr þenslu og draga úr neyslu, viðskiptahalla, að breyta skattstiginu. Nú er hins vegar málum þannig komið, herra forseti, að í millitíðinni hafa verið gerðir kjarasamningar þar sem þetta skattastig hefur verið fest --- og einnig hitt sem ég rakti mjög ítarlega í ræðu minni, hafi hv. þm. lagt við hlustir --- að við erum því miður að fara niður úr þessu góðærisstigi og við erum að stefna í talsverða erfiðleika. Ég vona svo sannarlega að af því verði ekki en það dregur saman, bæði hefur dregið úr hagvextinum, krónan er í þeim erfiðleikum sem þarf ekki að tala um og því miður er það þannig að fólk á erfiðara en áður með að borga skuldirnar sem það setti sig í í miðju góðærinu. Það segja bankastofnanir okkur, vanskil aukast og við þessar aðstæður er fullkomlega galið efnahagslega að hækka skatta á almennt launafólk í landinu. Ég held að hv. þm. sé mér sammála um það þegar hann hugsar málið í botn.