Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 17:06:46 (2304)

2000-11-28 17:06:46# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[17:06]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hóf svar sitt á því að ríkisstjórnin ætlaði að hækka skatta. Það er einfaldlega ekki rétt. Það er heimild í þessu frv. fyrir sveitarfélögin að breyta útsvari sínu og það er algjörlega ákvörðun þeirra hvort þau gera það eða ekki.

Hv. þm. sagði líka að það ætti að andmæla hækkun útsvars á Skagamenn. Menn á Skaganum voru afskaplega ánægðir með þessa miklu tekjuskattslækkun, 4% tekjuskattslækkun sem var framkvæmd fyrir tveim, þrem árum, og þeir skilja ekki þegar Samfylkingin er að koma og skamma okkur fyrir þessa lækkun. Á hverjum fundinum á fætur öðrum sem ég sit á Akranesi spyrja menn: Af hverju í ósköpunum er Samfylkingin alltaf að skamma ykkur fyrir þessa lækkun? Af hverju er Samfylkingin að skamma ykkur fyrir að lækka skattana og auka kaupmáttinn hjá okkur? Fólk skilur þetta ekki.

Að formaður Samfylkingarinnar hafi sagt þetta fyrir einu og hálfu ári, það er auðvitað rétt, hann sagði það þá en hann sagði það líka í síðustu viku. Ég heyrði hann síðast í sjónvarpinu í síðustu viku vera að skamma ríkisstjórnina fyrir að hafa lækkað skatta. Á sama tíma og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson er að skamma ríkisstjórnina fyrir skattahækkanir er formaður Samfylkingarinnar að skamma hana fyrir skattalækkanir.

Af því að hv. þm. talaði í ræðu sinni hér áðan um að skamma Albaníu og meina Kína þá held ég að það sé nú eitthvað svoleiðis á ferðinni þarna og þetta lýsi einhverri ákveðinni valdabaráttu í Samfylkingunni.