Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 17:08:05 (2305)

2000-11-28 17:08:05# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[17:08]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Nú þykir mér hv. þm. orðnir djúpir.

Herra forseti. Af því að ég kallaði hv. þm. inn til þessarar umræðu í ljósi þess að mig rak minni til þess að hann hefði verið farsæll bæjarfulltrúi á Akranesi þykir mér ástæða til þess að halda því til haga því hann orðaði það sem svo að sveitarstjórnarmönnum væri algjörlega í sjálfsvald sett hvort þeir nýttu þessar auknu heimildir. Sýnist hv. þm. að sveitarstjórnarmenn hafi mikið val, hringinn í kringum landið þegar tölfræðileg gögn hafa verið skoðuð um þau efni? Mér sýnist því miður að langsamlega flest sveitarfélög hafi nákvæmlega ekkert val, og ætli þau að sýna nokkra minnstu ábyrgð í að renna ekki þráðbeint í gjaldþrot ber þeim að nýta þessar heimildir.

Auðvitað liggur hin pólitíska ábyrgð algjörlega á réttum stað hjá hv. þm. sjálfum og þingmeirihlutanum á hinu háa Alþingi. Þeirra er þessi skattahækkun.