Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 17:09:15 (2306)

2000-11-28 17:09:15# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[17:09]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Við erum að ræða frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga þar sem sveitarfélögunum er heimilt að hækka útsvarsálagninguna ef þau kjósa svo. En það hefur komið í ljós og við höfum heyrt það í fréttum að ekki ætla öll sveitarfélög að nýta sér hækkunina og vil ég þá nefna Garðabæ sem er stjórnað af sjálfstæðismönnum. Það hefur verið tilkynnt þaðan.

Auknar kröfur gerðar til sveitarfélaganna um þjónustu við íbúana, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson. Sveitarfélögin, sérstaklega í dreifbýlinu, eru knúin til að þjónusta íbúa sína afar vel til þess að halda í þá þannig að þeir flykkist ekki allir hingað suður.

Hvað varðar það sem hv. þm. var að ræða um yfirtöku grunnskólans þá kemur í ljós eftir úttekt KPMG endurskoðunar hf. að á tímabilinu 1996--1999 er lítill munur á tekjum og útgjöldum sveitarfélaga vegna reksturs grunnskóla. Við verðum að muna að sveitarfélögin gerðu samning við kennara 1997 sem þau brutu nánast um leið. Ég tók þátt í því sem sveitarstjórnarmaður að gera aðra samninga við kennara, algjörlega meðvituð um að þetta yrðu meiri álögur á sveitarfélagið. Þetta var pólitísk ákvörðun um að gera kennarana ánægðari í skólanum og veita börnunum betri þjónustu. En þetta var algjörlega ákvörðun sveitarstjórnarmanna að fara út fyrir þann ramma sem var gefinn upp í samningunum sem voru gerðir 1997.