Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 17:13:26 (2308)

2000-11-28 17:13:26# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[17:13]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég neita að hlusta á það að sveitarfélögin séu eins og liggjandi maður. Víðast hvar standa sveitarfélögin mjög vel og sinna hlutverki sínu af mikilli kostgæfni. Ég held að það sé mjög rangt í allri þessari umræðu að tala um að sveitarfélögin séu á heljarþröm því að þau veita góða þjónustu. Hvað á fólkið úti á landi að gera þegar það hlustar á svona bölmóðsræður? Leggjast undir feld?

Það ríkir bjartsýni hjá fólki víðast hvar á landinu. Flestallir hafa það bara ljómandi gott. Ég sé ekki annað en að sveitarfélögin geti nýtt sér þessar heimildir, það var það sem ég sagði áðan, og það er í þeirra valdi að gera það en ekki Alþingis að setja hámark þar á. Þeir ráða hvort þeir nýta þessar tvær heimildir hvora á sínu árinu.