Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 17:39:02 (2311)

2000-11-28 17:39:02# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[17:39]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Aðeins út af þeim orðum sem féllu í lokin hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni, þá var upplýst, a.m.k. á fundi vestur á Ísafirði nýlega þar sem rætt var um fjármál sveitarfélaga í tengslum við sölu orkubúsins, að það var ekki aðeins sveitarfélagið Vesturbyggð sem taldi sig hafa farið mjög halloka í því sameiningarferli sem þeir fóru í á sínum tíma heldur einnig sveitarfélagið Ísafjarðarbær sem er nú ekki svo langt síðan að sameinaðist. Ef ég man þá tölu rétt þá held ég að bæjarstjórinn á Ísafirði hafi sagt að hann teldi að það væru á milli 350--400 millj. kr. sem það sveitarfélag telur að vanti upp á svo að staðið hefði verið við það sem þeir töldu að ætti að fylgja sameiningunni.

Ég held að það sé líka alveg rétt sem þingmaðurinn sagði að í Vesturbyggð töldu menn sig fara halloka úr úr sameiningunni sem þar varð fyrr. Ég veit ekki hvort hægt er að tengja þetta við einn ráðherra eða eina aðgerð. Þetta virðist vera gegnumgangandi og þetta eru ákveðin fælingaráhrif, eins og þingmaðurinn kom inn á varðandi það að sveitarstjórnir og sveitarfélög þori að fara í sameiningu.