Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 17:40:38 (2312)

2000-11-28 17:40:38# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[17:40]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get að sjálfsögðu tekið undir að ekki sé hægt að hengja það endilega á einn hæstv. fyrrv. ráðherra, en sú mikla sameiningarbylgja sem þá var uppi var þó rekin af stað af því ráðuneyti á þeim tíma, um 1993. Það var gert með miklum látum og mikið var lagt undir af hálfu ráðuneytisins til að fá þetta almennilega af stað. Út af fyrir sig voru menn alveg sammála því að reyna sameiningar en það eru bara þessar eftirsleikjur, að menn standi síðan við það sem um er talað.

Auðvitað hafa sveitarfélög sameinast á síðustu sex árum og þau sveitarfélög vissu nákvæmlega eða betur að hverju þau gengu eftir að hafa kynnst reynslu annarra sveitarfélaga í þessu ferli. Það kom fram að með sameiningu annarra eða væntanlegri sameiningu annarra sveitarfélaga eins og á Eyjafjarðarsvæðinu gæti það kostað sveitarfélögin á milli 90--100 millj. í tekjum ef þau mundu sameinast eftir þeim reglum sem nú eru í gildi. Þetta er skýrsla sem hefur verið gerð af aðilum á Eyjafjarðarsvæðinu sjálfu og ég hef undir höndum og gæti sýnt --- og það skiptir verulegu máli. Það er einmitt ástæðan fyrir því að verið er að breyta reglunum þannig að t.d. þessi sveitarfélagahópur sjái sig ekki tapa stórkostlegum tekjum úr jöfnunarsjóði með því einu að sameinast.