Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 17:43:09 (2313)

2000-11-28 17:43:09# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[17:43]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Við að hlýða á ummæli stjórnarsinna við þessa umræðu hefur mér fundist að þeim líði hálfilla við þá niðurstöðu sem þeir standa fyrir, þ.e. að standa fyrir almennri skattahækkun á íbúa landsins. Þeir eru í hálfgerðum kattarþvotti að reyna að þvo sig frá þeirri niðurstöðu og flýja ávallt í það skjól að það sé komið undir hverju sveitarfélagi hvort útsvarið verður hækkað eða ekki. En þetta er bara, herra forseti, að setja málið í einfaldan búning og vil ég koma að því í máli mínu.

Mér fannst málflutningur síðasta ræðumanns hálfsérkennilegur. Það er eins og hann muni ekki eftir því að Sjálfstfl. hefur verið alllengi í ríkisstjórn og kom að ríkisstjórnarborðinu og hefur setið þar samfleytt frá því ári þegar byrjaði að halla undan fæti fyrir sveitarfélögunum 1991. Sú sem hér stendur hafði þá verið ráðherra sveitarstjórnarmála í fjögur ár og á árinu 1991 --- og ég man ekki betur en það hafi komið fram í skýrslu tekjustofnanefndar --- var hreint borð milli ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin höfðu þá ekki yfir neinu að klaga í fjárhagslegum samskiptum eins og þau lágu þá fyrir milli ríkis og sveitarfélaga. En þegar íhaldið sest við stjórnarborðið, það er frá þeim tíma sem menn eru að gera upp málin núna, er það með þeirri niðurstöðu að leggja almennar skattahækkanir á íbúa landsins. En ég ætla ekki að elta ólar við málflutning síðasta ræðumanns heldur snúa mér að þeirri hlið mála sem hefur kannski ekki mikið verið rædd en þarf þó að ræða líka við umræðu um þetta frv., þ.e hverjir muni svo borga brúsann þegar upp er staðið, á hverja er hengdur bagginn.

[17:45]

Mér finnst, herra forseti, að hæstv. starfandi félmrh. þurfi eiginlega að vera viðstaddur þá umræðu líka og fer þess hér með á leit að hann heiðri okkur með nærveru sinni vegna þess að ég þarf að leggja fyrir starfandi hæstv. félmrh. tvær til þrjár spurningar, en hann ber stóra ábyrgð á þeirri niðurstöðu sem við erum að ræða. En meðan verið er að koma því áleiðis til hæstv. félmrh. að nærveru hans sé óskað, þá vil ég fara yfir þá umsögn sem liggur fyrir frá borgarstjóranum í Reykjavík. Borgarráð Reykjavíkur fagnar því að viðurkenning ríkisins skuli hafa fengist á þeirri staðreynd að verulega hafi hallað á sveitarfélögin í fjármálalegum samskiptum þeirra við ríkið á undanförnum árum og að tekjustofnar þeirra hafi ekki verið í samræmi við lögskyld og aðkallandi verkefni. Síðan segir að það hafi verið mat fulltrúa sveitarfélaganna í tekjustofnanefndinni að tekjuþörf sveitarfélaganna vegna aukinna verkefna og ákvarðana ríkisvaldsins í skattamálum væri 6--7 milljarðar á ári.

Borgarráð gerir alvarlegar athugasemdir við að samfara auknum heimildum sveitarfélaga til að hækka útsvar um 0,99% á næstu tveimur árum skuli ríkið ekki hafa áform um að lækka tekjuskattinn nema um 0,33% á næsta ári eða sem nemur 1.250 millj. kr. Tillögurnar munu því hafa í för með sér almenna skattahækkun sem mun bitna harðast á íbúum sveitarfélagsins. Síðan segir orðrétt, með leyfi forseta, sem við í Samfylkingunni tökum svo sannarlega undir :

,,Það er óviðunandi að leiðrétting á óréttlátri tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga skuli með þessum hætti velt yfir á íbúa sveitarfélaga.``

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson fór mjög rækilega yfir fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga og þann verkefnatilflutning sem átt hefur sér stað á umliðnum árum til sveitarfélaganna. Ég held að það séu orð að sönnu að mörg verkefni ættu að vera hjá sveitarfélögunum sem eru núna hjá ríkinu einfaldlega vegna þess að mörg sveitarfélögin hafa ekki burði til að taka við þeim verkefnum sem svo sannarlega ættu að vera á vettvangi þeirra, eins og hér hefur verið reifað, t.d. málefni aldraðra, málefni framhaldsskólanna, málefni fatlaðra o.s.frv. Það eru því mörg verkefni sem ættu að vera hjá sveitarfélögunum en eru hjá ríkinu vegna smæðar sveitarfélaganna. Ég er alveg viss um og það hefur reyndar komið fram að því verkefni sem nú stendur fyrir dyrum að flytja til sveitarfélaganna, þ.e. málefni fatlaðra, hefur verið stefnt í mjög mikið uppnám núna með þeirri niðurstöðu sem við ræðum í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Ég man ekki betur en að Öryrkjabandalagið hafi sent frá sér ályktun um að það hafi áhyggjur af þeim verkefnaflutningi með tilliti til þess hvernig staðið hefur verið að því að yfirfæra fjármagn með eðlilegum hætti til sveitarfélaganna samfara auknum verkefnum.

Farið hefur verið rækilega yfir það hvar hefur hallað á í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og þær lagabreytingar hafa verið taldar upp sem hafa haft áhrif á hvar hallað hefur á sveitarfélögin í þessum samskiptum. Nefnd hafa verið ákvæði tekjuskattslaga um frádrátt vegna hlutabréfakaupa, skattfrelsi lífeyrisiðgjalda, breyting á lögum um tryggingagjald og upptaka fjármagnstekjuskatts. En það er ein hliðin á fjármagnstekjuskattinum sem ég vil taka sérstaklega upp og spyrja hæstv. félmrh. hvort hafi verið tekið inn í það uppgjör milli ríkis og sveitarfélaga sem menn voru að sýsla við hjá nefndinni. Hún snýr að frestun á skattlagningu á söluhagnaði sem kom í lög 1996 hjá einstaklingum og 1998 hjá fyrirtækjum.

Ég hef í höndunum bréf frá ríkisskattstjóra sem er dagsett 21. nóvember á þessu ári þar sem sem ríkisskattstjóri reifar hvert tekjutap ríkis og sveitarfélaga hafi orðið vegna frestunar á söluhagnaði á hlutabréfum. Ríkisskattstjóri er hér fyrst og fremst að tala um einstaklingana og þar koma fram nokkuð háar tölur, herra forseti.

Hér kemur fram að á árinu 1990 vegna söluhagnaðar 1998 hefði tekjuskattur til ríkisins hækkað um 1,5--2 milljarða og útsvar til sveitarfélaga um 0,7 milljarða eða 700 millj. kr. ef þessi frestunarheimild hefði ekki verið fyrir hendi og að á árinu 2000 vegna söluhagnaðar 1999 hefði tekjuskattur til ríkisins hækkað um 3,4--4,3 milljarða og útsvar til sveitarfélaga um 1,5 milljarða eða samtals 4,9--5,8 milljarða. Þetta þýðir, herra forseti, að vegna þeirrar frestunar sem Alþingi heimilaði 1996 og 1998 hafa ríki og sveitarfélög orðið af tekjum upp á allt að 8,5 milljarða, herra forseti, á þessum tveimur árum. Þar af hafa sveitarfélög orðið fyrir 2 milljarða kr. tekjutapi. Þetta er ekki svo lítil fjárhæð fyrir sveitarfélögin. Þetta er rúmlega helmingur þess sem á að fara að leggja á íbúana í aukinni útsvarsálagningu. Ég spyr því hæstv. starfandi félmrh.: Var tekið tillit til þeirra lagabreytinga sem ríkisvaldið stóð fyrir árið 1996 og 1998 þegar gengið var frá uppgjöri í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga? Við erum að tala um að sveitarfélögin hafi orðið af 2 milljörðum kr. á þessum tveimur árum. Er þetta inni í þeirri tölu sem menn eru alltaf að tala um, 6--7 milljarðar, eða stendur þetta út af?

Herra forseti. Athyglisvert er að þegar við erum að tala um í þessu dæmi nær 8,5 milljarða tekjutap ríkis og sveitarfélaga, þá eru þetta ekki nema 636 einstaklingar sem fengið hafa frestun á skattlagningu á söluhagnaði upp á 8,5 milljarða, herra forseti. Það er ekki svo lítið á hvern og einn þeirra og kemur vel á vondan, á starfandi hæstv. félmrh. að verja það að verið sé að fresta skattlagningu á söluhagnaði --- á hverja? Á þá sem mest hafa fyrir í þjóðfélaginu? Ég er sannfærð um að þessir 636 einstaklingar sem hafa fengið frestun á söluhagnaði upp á 20 milljarða, sem þýðir tekjutap ríkis og sveitarfélaga upp á 8,5 milljarða, er liðið sem fyllir flokk kolkrabbans m.a. og þeirra sem mest hafa fyrir í þjóðfélaginu. (Landbrh.: Þetta er öðruvísi fólk.) Er þetta hvað, hæstv. ráðherra? (Landbrh.: Þetta er öðruvísi fólk.) Er þetta öðruvísi fólk? Það er best að hæstv. ráðherra, fyrst hann veit hvaða fólk þetta er, skýri það þá nánar í ræðustól. Ég man ekki betur en að hæstv. starfandi félmrh. hafi oft og iðulega staðið í þessum ræðustól og gagnrýnt hvernig verið var að mylja undir þá sem betur hafa það í þjóðfélaginu. En það er það sem hann hefur staðið fyrir í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ég er ekki viss um að tekjustofnanefndin hafi áttað sig á þessu gífurlega tekjutapi sem sveitarfélögin hafa orðið fyrir vegna frestunar á skattlagningu á söluhagnaði upp á allt að 8,5 milljarða á tveimur árum sem er frestun vegna 636 einstaklinga og þar af hafa sveitarfélögin orðið fyrir tekjutapi sem nemur 2 milljörðum kr. Vegna þess að ef það er rétt, herra forseti, að láðst hafi að taka þetta upp á borðið í uppgjörinu, þá finnst mér, herra forseti, satt að segja ansi mikið standa út af. (Gripið fram í.) Og kostnaður vegna EES, nokkrir milljarðar þar. Það stendur enn ansi mikið út af í þessu uppgjöri á milli ríkis og sveitarfélaga. Ég spyr, herra forseti: Getur verið að sveitarfélögin í landinu hafi ekki áttað sig á hvaða afleiðingar lagabreytingin sem ríkisvaldið stóð fyrir 1996 og 1998 hafði á tekjur sveitarfélaganna? Mikilvægt er að fá þetta upplýst, herra forseti, áður en frv. sem við ræðum verður að lögum og vil ég spyrja hæstv. ráðherra um það, og einnig í leiðinni spyrja hæstv. félmrh. hvort hann sé sammála því frv. sem snýr að frestun á skattlagningu á söluhagnaði á lögaðila og fjmrh. er með í þingsölum, hvort ráðherra sé sammála því að heimila lögaðilum áfram að búa við frestun á skattlagningu á söluhagnaði vegna þess að eins og hæstv. félmrh. væntanlega veit er ríkisstjórnin eingöngu að beita sér fyrir því að afnema þessa frestun að því er varðar einstaklinga.

Einnig er rétt að spyrja hæstv. starfandi félmrh. af því að Framsfl. hafði fyrirvara á því að lækka skatta úr 38% eins og það er núna niður í 10% á þá sem hafa söluhagnað yfir 3,2 millj. hjá einstaklingum og 6,4 millj. hjá hjónum. Er hæstv. starfandi félmrh. virkilega sammála því að lækka skatta á þá aðila sem mest hafa fyrir í þjóðfélaginu úr 38% í 10%, en standa að því á sama tíma að hækka skatta á íbúa landsins með þeirri aðgerð sem hér er verið að gera? Vegna þess að ríkisstjórnin stendur að því núna að hækka almenna skatta í landinu af því að ríkisstjórnin neitar að draga úr sínum hlut í staðgreiðslunni, með hvaða afleiðingum, herra forseti? Með þeim afleiðingum sem fram hafa komið á þessum degi að kjarasamningarnir eru í uppnámi. Það hefur verið sett fram af hálfu ASÍ að margra mánaða laun fólks með litlar tekjur eru étin upp í þeirri skattahækkun og á sama tíma stendur ríkisvaldið að því með hæstv. félmrh. í broddi fylkingar að lækka skatta úr 38% í 10% á einstaklinga sem eru með söluhagnað --- söluhagnað, herra forseti, yfir 3,2 millj. hjá einstaklingum og 6,4 millj. hjá hjónum. Hverjir skyldu það vera sem eru með svona mikinn söluhagnað? Það eru þeir sem eiga ógrynni af fjármunum sem þeir hafa fengið --- með hvaða hætti, herra forseti? Við gætum farið út í þá sálma ef hæstv. félmrh. vill. Þetta er einmitt í hnotskurn það sem ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. hefur staðið fyrir: Að lækka skatta á fjármagnseigendur og þá sem eiga fjármagnið en hækka skatta á almennt launafólk í landinu. (Landbrh.: Tekjuskatturinn lækkaði.) Við skulum rifja það upp, herra forseti, af því að starfandi félmrh. er að rifja upp lækkun á tekjuskattshlutfallinu fyrir þremur árum, þá skulum við rifja það upp hvernig það kom niður. Hverjir borguðu brúsann?

[18:00]

Það hefur ASÍ sýnt fram á. Það var gert með því að láta skattleysismörkin ekki fylgja launaþróuninni þannig að skattleysismörkin sem hlífa tekjum þeirra sem minnst hafa fyrir, sátu eftir. ASÍ hefur sýnt fram á að það fjármagn sem ríkið sparaði sér með því var nýtt til þess að greiða skattalækkun hjá þeim sem meira hafa fyrir. Þannig stóð nú ríkisvaldið að því að efna það kosningaloforð fyrir þremur árum. Ég held að hæstv. félmrh. ætti að fara í bók sem ASÍ og BSRB létu gefa út og hét Skattkerfið út frá sjónarhóli launafólks. Þar kemur einmitt fram að fjölgað hefur verulega í hópi skattgreiðenda, einmitt þeirra sem ekki greiddu skatta áður eins og lífeyrisþega og fólks sem er með lægstu launin, af því að skattleysismörkin voru látin sitja eftir sem gaf ríkisstjórninni þá ákveðið svigrúm til að lækka skatthlutfallið í tengslum við kjarasamninga á sínum tíma. Er hæstv. félmrh., herra forseti, stoltur af þeirri aðgerð að láta þá sem minnst hafa fyrir, lífeyrisþegana og lægst launaða fólkið, standa undir þeirri skattalækkun?

Þetta er eins og það sem er að gerast núna að það á að hækka skattana á lægst launaða fólkið, lífeyrisþegana, einstæðu foreldrana, námsmennina, fólk með meðaltekjur, til þess að geta lækkað skatta á fólk með mikinn söluhagnað, það fólk sem veit ekki aura sinna tal. Þannig sjáum við aftur og aftur í gjörðum þessarar ríkisstjórnar hvernig tekjutilfærslan er að verða í þessu þjóðfélagi.

Tekjuskiptingin er svartasti bletturinn á starfi þessarar ríkisstjórnar. Sú var tíðin, herra forseti, að sá sem nú situr í stól félmrh. taldi mikið liggja við að fara út í ýmsar aðgerðir til þess að bæta stöðu þeirra sem verst höfðu það í þjóðfélaginu. Hæstv. starfandi félmrh. talaði þá mikið um skuldir heimilanna. En þær hafa a.m.k. tvöfaldast í tíð núv. ríkisstjórnar og eru orðnar 163% af ráðstöfunartekjum heimilanna og er sú staða nú upp komin að Seðlabankinn varar í skýrslu sinni við því að greiðsluerfiðleikar gætu verið yfirvofandi. En hæstv. starfandi félmrh. notaði iðulega þau orð í þessum ræðustól, þegar verið var að ræða um skuldir og skuldastöðu heimilanna og álögur á heimilin í landinu, og fór mikinn hér í þessum ræðustól og sagði að líf, heill og hamingja þúsunda heimila lægi við að ríkisstjórnin gripi til aðgerða til þess að koma í veg fyrir vaxandi skuldastöðu heimilanna og árásir stjórnarflokkanna á kjör þeirra sem verst hafa það. Og hér situr starfandi félmrh. og brosir breitt þegar hann stendur fyrir því (Landbrh.: Þetta er skemmtileg upprifjun.) að hækka skatta á lífeyrisþega sem ekki eiga fyrir nauðþurftum eða lægst launaða fólkið sem á ekki til hnífs og skeiðar.

Þannig getur nú fólk breyst, herra forseti, meira að segja sá maður sem ég hélt að væri kannski sá eini sem orðinn er eftir í hópi framsóknarmanna með félagslega hugsun, að hann brosir og skemmtir sér mjög við að hækka skattana á fólkið í landinu og það láglaunafólkið á sama tíma og hann stendur að skattalækkun á þá sem mest hafa fyrir. (Gripið fram í.) Síðan þegar hæstv. ráðherra var hér áðan í ræðustól að svara hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni þá talaði hann um hvernig stæði nú á því að þingmaðurinn væri með þetta svartsýnisraus, hér ætti fólk að vera lífsglatt og bjartsýnt vegna þess að allt væri í miklum uppgangi í þjóðfélaginu og allt væri eins og best er á kosið fyrir heimilin í landinu.

Herra forseti. Ég vænti þess að ég fái svör við því sem fram kemur hjá ríkisskattstjóra í bréfi til þingflokks Samfylkingarinnar 21. nóvember þar sem fram koma ýmsar mjög athyglisverðar upplýsingar um áhrifin af frestum á skattlagningu á söluhagnaði.

Herra forseti. Þingflokkur Samfylkingarinnar stendur fyrir breytingartillögu við frv. um tekjuskatt og eignarskatt, sem er frv. sem tengist því máli sem við hér ræðum. Breytingartillagan felur í sér að auka ekki skattbyrði á heimilin í landinu og vænti ég þess að hæstv. félmrh. hafi skoðað hana vandlega. Í greinargerð með þeirri breytingartillögu kemur það fram sem er hið rétta og eðlilega og sem sveitarfélögin bæði í umsögn um þetta mál og í umsögn um frv. um tekjuskatt og eignarskatt taka undir, þ.e. að eðlilegast sé að hér sé fyrst og síðast um tekjutilfærslu að ræða milli þessara opinberu aðila, þ.e. ríkisvalds og sveitarfélaga. Þegar menn hafa komist að niðurstöðu um hverjar skuldirnar eru þá er sagt að hér eigi fyrst og fremst að vera um tekjutilfærslu milli þessara stjórnvalda að ræða. En ríkisvaldið hefur kosið að fara aðra leið, herra forseti.

Það var rifjað upp hér í dag af stjórnarliðum þegar við ræddum meðferðina í efh.- og viðskn. á því frv. sem á þó að hafa mildandi áhrif gagnvart þeirri almennu skattahækkun sem ríkisstjórnin er að knýja í gegn, að þessi frv. bæði, þ.e. þetta sem hér er til umræðu og það frv. sem var í efh.- og viðskn., eigi að skoðast í samhengi. Því hlýt ég, herra forseti, að verja örfáum mínútum í að ræða það frv. sem hangir saman við þetta og það er raunverulega furðulegt og kannski ástæða til að vekja athygli á því að það frv. er ekki á dagskrá í dag, svo mikla áherslu sem stjórnarliðar hafa lagt á að þessi mál verði samferða og það með þeim látum að ekki var hægt að hafa framhaldsfund í dag í efh.- og viðskn. til að ræða nýja hlið sem fram kom á því máli þegar fulltrúar úr forustu ASÍ komu á fund efh.- og viðskn.

Ég hlýt að vekja athygli á því, herra forseti, í tengslum við afgreiðslu þessa máls, að forusta ASÍ kom til fundar við efh.- og viðskn. í gær. Forusta ASÍ heldur því fram að kjarasamningarnir séu við það að bresta. Hún heldur því fram að ríkisstjórnin sé að svíkja ákvæði í gerðum samningum, þ.e. um skattleysismörkin sem var aðgerð til að greiða fyrir kjarasamningum. Forusta ASÍ varar við því að kjarasamningarnir séu komnir í svo mikið uppnám að það gæti blasað við að þeim yrði sagt upp núna eftir mánaðamótin og þá yrðu verkföll ekki umflúin, herra forseti.

Forusta BSRB ályktaði í dag einnig í þessa veru. Bæði stærstu heildarsamtök launafólks vara alvarlega við því að demba þessum byrðum eins og hér á að gera yfir á íbúa landsins með þeim afleiðingum að kjarasamningarnir gætu brostið.

Meiri hlutinn í efh.- og viðskn. hefur skilað nefndaráliti sem dreift hefur verið á borð þingmanna núna á síðustu klukkutímum. Það er ekki eitt orð um það, herra forseti, hvaða áhrif þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar getur haft eða hvað fram hefur komið hjá forustu heildarsamtaka launafólks í þessu landi. Ég sé varla að þess sé einu sinni getið að þeir hafi mætt á fund efh.- og viðskn. í gærkvöldi. Það er hreinasta skömm að því hvernig að þessu nefndaráliti er staðið og það hvernig ríkisstjórnin stendur að því að auka skattálögur á láglaunaheimilin í landinu með þeim afleiðingum að kjarasamningar eru komnir í uppnám er hrein stríðsyfirlýsing af hálfu stjórnvalda við launþega í landinu.

Meiri hlutinn í efh.- og viðskn. segir ekki eitt einasta orð um þetta í nefndaráliti sínu sem er örfáar línur, mest upptalning á hverjum málið var sent til umsagnar, en það gafst ekki einu sinni tími til að fara sómasamlega yfir það af hálfu nefndarinnar af því að svo mikið lá við að afgreiða málið úr nefnd. Þannig er nú afgreiðslan, öll í skötulíki af hálfu efh.- og viðskn. og þær aðvaranir sem fram hafa komið af hálfu heildarsamtaka launafólks breyta engu.

Í þessu plaggi, sem ég veit ekki hvort meiri hluti efh.- og viðskn. hefur litið á, en sem ég vænti að sé á borðum hv. þingmanna í þessum sal sem fylgiskjal með þeim gögnum sem minni hluti efh.- og viðskn. hefur lagt fram, koma fram upplýsingar um hvaða áhrif þessi skattahækkun hefur á kjarasamninga og hvaða áhrif þessar skattahækkanir hafa á einstaka tekjuhópa í þjóðfélaginu, herra forseti. Og það er nú ekki svo lítið vegna þess að hér er farið inn á lækkun ráðstöfunartekna á ári vegna skattahækkunarinnar. Þar er t.d. maðurinn með 70 þús. kr. Það er verið að éta upp af ráðstöfunartekjum hans með þessari skattahækkun hvorki meira né minna en 7.200 kr. Maðurinn með 90 þús. kr. Það er verið að éta upp af hans ráðstöfunartekjum á ári vegna skattahækkunarinnar um 8 þús. kr. og tæpar 10 þús. kr. hjá manninum með 110 þús. kr.

ASÍ fer hér yfir hve margra mánaða launahækkun hverfur vegna fyrirhugaðra skattahækkana. Það er ekki svo lítið, herra forseti. Hér er verið að tala um að á árinu 2003 hafi eins og hálfs mánaðar launahækkun lægst launaða mannsins verið étin upp með þessum skattahækkunum. Og varðandi þá sem eru yfir 90 þúsund, er verið að tala um tæplega þriggja mánaða launahækkun sem hverfur í þessa skattahækkun. ASÍ nefnir hér sem dæmi um afleiðingar fyrirhugaðrar breytingar að árið 2003 hyrfi rétt tæplega fjórðungur af almennum launahækkunum þess árs í skattahækkunina eina.

Áform um að hækka barnabætur eru hið eina sem meiri hluti efh.- og viðskn. nefnir til réttlætingar þess að farið verði í útsvarshækkun og fjallar ASÍ um það, og af þessu gefna tilefni, af því að áform ríkisstjórnarinnar um hækkun á barnabótum eru eina efnisatriðið sem meiri hluti efh.- og viðskn. tekur fram um að hafi mildandi áhrif ef sveitarfélögin nýta sér að fullu þessa heimild til útsvarshækkunar, þá vil ég lesa upp það sem ASÍ hefur um það að segja, af því að hækkun á barnabótum var líka hluti af kjarasamningum og yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar, ef ég man rétt. ASÍ segir, með leyfi forseta:

,,Aðeins nokkrar vikur eru síðan stjórnvöld héldu mjög á lofti sérstökum kjarabótum til einstæðra foreldra með tilkomu svonefndra barnakorta. Þau áttu m.a. að tryggja einstæðu foreldri með eitt barn eða fleiri undir sjö ára aldri um 100 þús. kr. í mánaðartekjur, rúmlega 34 þús. kr. í auknar ráðstöfunartekjur árið 2003.``

Síðan kemur niðurstaðan, með leyfi forseta:

,,Það ár hyggst ríkisstjórnin nú taka til baka ríflega fjórðung af þessum kjarabótum með boðaðri skattahækkun einni og sér.``

Barnabætur sem hæstv. félmrh. hefur staðið fyrir síðan 1995 að lækka um nærri 2 milljarða, en hann náðarsamlegast ætlar að skila aftur á næstu þremur árum, herra forseti --- ég bið um að það sé tekið eftir því að það er ekki fyrr en á næstu þremur árum sem á að skila því sem hefur verið tekið á sl. fimm árum --- það á að rífa aftur. Það á líka að rífa aftur með þessari skattahækkun.

[18:15]

Ég sé að hæstv. starfandi félmrh. er hættur að brosa þannig að ég vona að málflutningurinn hafi einhver áhrif. (Landbrh.: Nei, nei.) Ja, svo forstokkaður er hæstv. starfandi félmrh. orðinn, herra forseti, að hann segir bara: nei, nei. (Landbrh.: Ég hætti ekki að brosa.) Ég hélt að hæstv. ráðherra væri sá eini sem eftir væri í Framsfl. sem hægt væri að treysta til að standa vörð um láglaunafjölskyldurnar.

Herra forseti. Ég vil líka nefna að aldraðir og öryrkjar munu verða mjög illa úti í áformum ríkisstjórnarinnar að knýja í gegn þessa skattahækkun. Í upplýsingum sem hafa komið fram hjá fjmrn. er það nefnt að þegar á næsta ári muni rúmlega 2.100 manns, sem greiða ekki skatta núna, fara að greiða skatta vegna þessara áforma ríkisstjórnarinnar. Þeim mun enn fjölga árið 2003 en ekki hefur unnist tími í þá útreikninga að finna út hvað sá fjöldi verður orðinn árið 2003 þegar skattahækkun ríkisstjórnarinnar er að fullu komin til framkvæmda en ég spái því að það verði ekki undir þrjú þúsund manns. Það er líka alveg gefið að það sem fyrst og fremst er um að ræða ef ekki er staðið við fyrirheit um skattleysismörkin með skattahækkuninni er að þetta kemur mjög illa við lífeyrisþegana. Í þessum rúmlega tvö þúsund manna hópi, sem verður væntanlega ekki undir þrjú þúsund og jafnvel fleiri á árinu 2003, er náttúrlega fyrst og fremst fólkið með lægstu launin, einstæðir foreldrar með lág laun, þar eru lífeyrisþegar og þar eru námsmenn. Ég held að þetta séu þeir hópar sem fylla þann flokk sem þarna er talinn upp, þ.e. þennan fjölda upp á á þriðja þúsund sem fer núna að greiða skatt en ekki hefur greitt skatt áður.

Öryrkjabandalagið hefur gagnrýnt fyrirhugaðar skattahækkanir og segir að þróun skattleysismarka hafi verið með þeim hætti á síðasta áratug að jafnvel þeir sem hafa ekkert nema bætur almannatrygginga séu nú farnir að greiða af þeim beinan skatt. Það gerðist einmitt í tíð ríkisstjórnarinnar, í góðærinu þar sem ríkisstjórnin hefur haft tugi milljarða úr að spila umfram t.d. síðustu ríkisstjórn og núna með tekjuafgang upp á 30 milljarða sem er m.a. fenginn með því að hlunnfara lífeyrisþega upp á a.m.k. þrjá til fjóra milljarða miðað við þá stöðu og samanburð sem Samtök aldraðra hafa gert við árið 1995 um hvert hlutfall lífeyrisgreiðslna var miðað við almenn verkamannalaun. Tekjuafgangurinn sem ríkisstjórnin státar af upp á 30 milljarða er m.a. fenginn með því. Það er ástæðan fyrir því einmitt með skattleysismörkin að þau hafa lækkað að verulega hefur líka fjölgað í hópi lífeyrisþega sem farnir eru að greiða skatt.

Í ályktun Öryrkjabandalagsins segir að öryrkjar séu farnir að greiða beinan skatt sem nemur tugum þúsunda á ári hverju og bendir Öryrkjabandalagið á að þetta gerist þrátt fyrir þá staðreynd að örorkulífeyrir og tekjutrygging hafi dregist verulega aftur úr þróun bæði lágmarkslauna og launavísitölu. Auðvitað minnir Öryrkjabandalagið líka á þá miklu hækkun sem hefur orðið á lyfjakostnaði og húsaleigu hjá þeim sem eiga ekki eigið húsnæði í hópi þeirra félaga.

Í lokin leggur Öryrkjabandalagið áherslu á að komi til útsvarshækkana verði hún að fullu bætt með samsvarandi lækkun á tekjuskatti. Þetta er gegnumgangandi frá félagasamtökum, frá sveitarfélögunum, að fara aðra leið í þessu efni en ríkisstjórnin leggur til.

Herra forseti. Nú gefst tími til þess að ræða nánar áhrifin af þeirri leið sem ríkisstjórnin leggur til þegar frv. sem hangir saman við þetta kemur í þingsali á nýjan leik. En ég hvet til þess, herra forseti, að reynt verði að ná niðurstöðu í þessu máli í samvinnu við ASÍ, BSRB, sveitarfélögin og stjórnarandstöðuna sem leiði til þess, herra forseti, að forða því að kjarasamningar séu settir í það uppnám sem þeir eru komnir í og sem eru komnir í þá stöðu að þeir eru við að bresta eins og varaformaður ASÍ sagði á fundi efh.- og viðskn. í gær. Ég held að það sé öllum til hagsbóta, líka stjórnarliðum, að ganga þannig til verks með heildarsamtökum launafólks, með Samtökum aldraðra og samtökum öryrkja og sveitarfélögum að sátt náist um þá leið sem farin er.

Við vitum að við erum stödd á þeim tímapunkti í efnahagsmálum þjóðarinnar þar sem ýmsar blikur eru á lofti. Ég hygg að allir séu sammála því að þjóðarbúið megi ekki við verkföllum eftir áramótin fari svo sem menn óttast nú orðið alvarlega, ekki síst vegna þessara skattahækkana, að kjarasamningum gæti verið sagt upp í febrúarmánuði. Ég held að við verðum að vinna allt til þess að svo verði ekki og leið til þess er að setjast yfir það að finna leið til sátta í þessu máli og að velta ekki skattahækkunum með þessum þunga yfir á íbúa landsins með þeim afleiðingum að forsendur kjarasamninga bresti. Það er eingöngu það, herra forseti, sem fyrir okkur vakti á fundi efh.- og viðskn. í gærkvöldi og með máli okkar í upphafi fundar í dag að leita leiða til að forsendur kjarasamninga haldi.

Herra forseti. Eins og varaformaður ASÍ orðaði það á fundi efh.- og viðskn. í gær er þetta heimatilbúin aðgerð ríkisstjórnarinnar að standa svona að máli. Engum er hægt að kenna um nema ríkisstjórninni sjálfri ef kjarasamningarnir halda ekki. Ástæða er til að rifja upp að það er undirskrifuð yfirlýsing í tengslum við kjarasamningana, af forustumönnum stjórnarflokkanna, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., þar sem talið er upp --- ég er ekki með það hér fyrir framan mig --- en mig minnir að það sé í fimm liðum aðgerðir sem ríkisstjórnin ætlaði að grípa til til að greiða fyrir kjarasamningum í marsmánuði sl. Einn mikilvægasti þáttur þeirrar yfirlýsingar til að greiða fyrir kjarasamningum var sá að skattleysismörkin héldu í við launaþróun. Það er sá liður í undirritaðri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem fylgir með sem fylgiskjal með nál. minni hluta efh.- og viðskn. sem forusta ASÍ og heildarsamtök launafólks segja að ríkisstjórnin sé með verkum sínum að stefna að almennri hækkun, að ganga á bak orða sinna, eins og stendur í yfirlýsingu ASÍ ,,ganga á bak orða sinna um þróun skattleysismarka``.

Herra forseti. Ég hef beint ákveðnum spurningum til hæstv. starfandi félmrh., sem ég vænti að fá svör við, og skal ekki endurtaka þær af því að ég veit að hæstv. ráðherra er minnugur maður og man þær spurningar sem ég hef lagt fyrir hann. En lokaorð mín skulu vera þau að ég skora á hæstv. ríkisstjórn að setjast að borði með fulltrúum ASÍ og sveitarfélaga og fá aðra niðurstöðu í þau mál sem við ræðum hér en nú stefnir í.