Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 18:25:47 (2314)

2000-11-28 18:25:47# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[18:25]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla mér ekki að svara fyrir flókin skattamál í þessu stutta andsvari enda kannski nær hæstv. fjmrh. að gjöra slíkt. Hitt er annað mál að ég vil segja við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að sem betur fer talar hún eins og hún gerði þegar hún var í ríkisstjórn. Hún er trú málflutningi sínum og það virði ég og ég vona að hún ætli ekki alltaf öðrum að verða umskiptingar.

Ég er þakklátur fyrir rödd hennar í garð öryrkja og fátækra og sú rödd þarf að hljóma í þessum þingsal. Hún heldur mönnum við efnið og er mikilvæg því að kannski eru þeir of fáir í velmegunarþjóðfélagi samtímans sem vilja berjast eins og hv. þm. gerir. Ég tek undir margt sem hún segir þó að myndin sé ýkt og harmi þrungin þegar hún flytur hana úr þessum stól.

Ég var sjálfur þannig staddur 1995 vegna þess ástands sem var í þjóðfélaginu. Unga fólkið var að tapa atvinnunni, kjaraskerðingarnar blöstu alls staðar við og við vorum að verða fátæk þjóð. Nú er staðan önnur og lífskjörin hafa batnað. Þegar kjörin hafa batnað um 25--30% á þessum fimm árum er staðan allt öðruvísi í landinu. Maður stendur ekki frammi fyrir grátandi fólki vegna atvinnuleysis og missis eigna sinna eins og var. Þess vegna er það alveg rétt, það er staða til að reyna að ná sátt um málefni aldraðra og öryrkja og vinna sig út úr frumskógi skerðingar á barnabótum, tryggingabótum og örorkubótum.