Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 18:29:51 (2316)

2000-11-28 18:29:51# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[18:29]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel sjálfsagt að fara yfir það hvernig og hvort hægt er að svara þeim spuringum og ég skal fara yfir það með ráðuneytinu.

Ég vil aðeins halda áfram í þeirri umræðu sem hv. þm. ýkir oft þrátt fyrir að mér þyki vænt um málflutning hennar og vænt um tryggð hennar og festu í stjórnmálastarfi hennar, en þá er það svo að ég get tekið undir það með hv. þm. að ég hef áhyggjur af tekjuskiptingunni og hún er öðruvísi en hún ætti að vera. Það er ekki ný bóla. Ég hef stundum áhyggjur af verkalýðshreyfingum sem skoða ekki heldur þann litla fátæka hóp sem hún var að tala um heldur styðja brattan stiga. Tekjuskiptingin er atriði sem atvinnulífið og verkalýðshreyfingin verður að fara yfir. Atvinnulífið verður að svara því á tímum velmegunar hvort ekki sé staða til að hækka lægstu launin meira.

Ég vil aðeins segja að það er auðvitað ýkt umræða þegar talað er um að ríkisstjórnin ætli að láta lífeyrisþega, láglaunafólk og eldri borgara borga brúsann. Það er rangt. Staðan er sú að við erum að bæta kjör þessa fólks eins og annarra. Mér finnst að þingið, hvort sem það eru stjórnarliðar eða stjórnarandstaða, verkalýðshreyfingin og öll öfl í þjóðfélaginu, þurfi að setjast yfir umræðuna, kryfja hana til mergjar, en hafa hana ekki í þeirri rugluðu umræðu að allt þetta fólk, eins og eldri borgarar, búi við slök kjör. Það eru margir fátækir sem þurfa meiri pening í röðum þeirra og þar þarf verk að vinna og ná þjóðarsátt um, hæstv. forseti.