Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 18:39:02 (2320)

2000-11-28 18:39:02# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÁGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[18:39]

Árni Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Við getum um margt verið sammála, ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, en þó ekki um aðferðafræði. Ég að vísu hef ekki undir höndum þetta plagg frá ríkisskattstjóra sem stílað er á Samfylkinguna. Fróðlegt væri að sjá það. Ég get ekki sett mig inn í það hér og nú.

Það er hins vegar staðreynd að menn hafa farið fram hjá þessum 38% mörkum. Ég er sammála þingmanninum í prinsippinu að að sjálfsögðu eigum við að skattleggja þá sem mest hafa, að sjálfsögðu. Ég skil það svo að hér sé verið að reyna að finna leið til þess. Við verðum að vera raunsæ og horfa á það hvað gengur upp í þessu og tilbúin að styðja allar góðar leiðir í þeim efnum.

Varðandi barnabæturnar þá höfum við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir áður rætt um barnakortin. Og það er gleðilegt að geta bent á það nú á þessu þingi að menn hafa þó náð þeim áfanga að taka upp ótekjutengdar barnabætur fyrir börn undir sjö ára aldri og það á hálfnuðu kjörtímabilinu. Það er staðreynd að verið er að koma verulega til móts við barnafólk í þessu frv. um breytingar á skattkerfinu sem reyndar er ekki hér til umræðu heldur kemur seinna á dagskrá. (Gripið fram í.)

Það er staðreynd að við erum að leggja til hækkun til barnafólks. Við framsóknarmenn erum nokkuð stoltir af því að hafa náð fram, þegar kjörtímabilið er hálfnað, ótekjutengdum barnabótum til barnafólks með börn undir sjö ára aldri. Við skulum spyrja að leikslokum í þessum efnum.