Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 18:43:32 (2322)

2000-11-28 18:43:32# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[18:43]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í upphafi vil ég segja aðeins örfá orð um þær umræður sem nú hafa spunnist um frv. Í fyrsta lagi sagði hæstv. starfandi félmrh., Guðni Ágústsson, að þjóðfélagið nú væri gerbreytt frá því sem var um miðjan tíunda áratuginn, að nú væri uppgangur og velsæld. Á þeim tíma eða árið 1995 hefði víða mátt finna fólk í erfiðleikum. Nú væri runninn upp annar tími. Staðreyndin er náttúrlega sú að margt fólk og allt of stór hópur Íslendinga á í mjög miklum erfiðleikum þrátt fyrir uppgang í efnahagslífi undangenginna ára og bera þess t.d. vott langar biðraðir eftir húsnæði. Fram kom í fréttum ekki alls fyrir löngu að um 500 manns eru á biðlista eftir húsnæði í Reykjavík og þar af eru um 300 fjölskyldur sem eiga í miklum erfiðleikum, hafa ekki í neitt hús að venda. Við höfum áður farið yfir stöðuna hjá þeim öryrkjum og öldruðum og láglaunafólki sem lakast standa.

[18:45]

Annað sem ég vildi nefna í upphafi ræðu minnar eru fullyrðingar sem komu fram hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni um barnabætur og hin miklu afrek sem Framsfl. er að vinna á því sviði. Staðreyndin er sú að enda þótt til standi að koma með ótekjutengdar barnabætur að upphæð rúmlega 30.000 kr., 33.000 kr. mun það vera, fyrir börn fram að sjö ára aldri, var ótekjutengdi hluti barnabótanna að meðaltali 40.000 kr. um miðjan tíunda áratuginn. Það er líka staðreynd að samkvæmt núvirði eru barnabæturnar 2 milljörðum lægri en í upphafi tíunda áratugarins og samkvæmt áætlunum stjórnvalda verður hluta af þeirri upphæð skilað til baka í áföngum á komandi árum. Meiri er nú stórhugurinn ekki. (Gripið fram í: En er ekki kaupmátturinn meiri?) Kaupmátturinn er meiri, það er rétt. Það hefur orðið til að skerða þetta framlag til barnafólksins en staðreyndin er sú að framlag úr samneyslunni til barnafólks hefur verið skert sem þessu nemur. Þetta eru staðreyndir sem er mikilvægt að haldið sé til haga.

Í þriðja lagi langar mig til að nefna umræðuefni sem hefur fléttast inn í umræðuna og það er hlutur lífeyrissjóðanna. Þar var vikið að ábyrgð verkalýðshreyfingar varðandi flutning á fjármagni úr landi vegna þess að fulltrúar verkalýðshreyfingar eiga aðild að stjórnum lífeyrissjóðanna. Ég tek undir að það er áhyggjuefni hve mikið fjármagn hefur streymt út úr landinu og þá ekki síst vegna fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna.

Í því sambandi vil ég minna á að lífeyrissjóðirnir starfa samkvæmt lögum og rammalöggjöf sem gildir um lífeyrissjóðina í landinu. Samkvæmt þeirri rammalöggjöf er lífeyrissjóðunum gert að fjárfesta jafnan þar sem arðurinn af fjármagninu er mestur. Einnig þarf sú forsenda að vera fyrir hendi að öryggið sé mest. Með þetta í huga hafa lífeyrissjóðirnir verið að dreifa áhættu en jafnframt að leita að sem hagstæðastri fjárfestingu.

Ég vil láta þess getið að ég einn þingmanna, held ég, greiddi atkvæði gegn þessu ákvæði rammalöggjafar um lífeyrissjóðina. Ég tel að einmitt með þessari hugsun hafi verið grafið undan þeirri samfélagslegu ábyrgð sem lífeyrissjóðirnir voru reistir á. Þar var hugsað um hagsmuni samfélagsins alls en ekki þrönga gróðahagsmuni lífeyrissjóðanna hvers um sig. Þetta vildi ég segja, herra forseti, í upphafi máls míns.

Við erum að ræða frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga. Þetta frv. byggir á starfi nefndar sem skipuð var á sínum tíma af hálfu ríkisstjórnarinnar til að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs mótmælti því þegar ekki var orðið við tilmælum okkar um að fá fulltrúa í nefndina en hún skilaði áliti án þess að við ættum þess kost að koma sjónarmiðum okkar að.

Ég ætla ekki að tíunda allar niðurstöður nefndarinnar. Niðurstöðurnar er að finna í eins konar úrdrætti sem er birtur sem fylgiskjal með þessu frv. en þar kemur m.a. fram að á tíunda áratugnum hafi bókfærðar skatttekjur sveitarsjóðanna aukist að raungildi um 69%, meðan rekstrargjöld að meðtöldum fjármagnsgjöldum hafa aukist um 97,4%, þ.e. á einum áratug aukast tekjur sveitarfélaganna um tæplega 70%, en útgjöldin verða næstum því helmingi meiri, aukast um 97,4%.

Allan síðasta áratug voru sveitarsjóðirnir reknir með halla. Hann mun hafa verið mestur árið 1994, eða 8,6 milljarðar, en árið 1999 var hann 2,7 milljarðar kr. Samkvæmt fjárhagsáætlun sem gildir fyrir þetta ár, árið 2000, verður áframhald á hallarekstri sveitarfélaganna í landinu.

Heildarskuldir sveitarsjóða voru í árslok 1999 51,8 milljarðar kr. og hafa þar með rúmlega tvöfaldast síðan 1990. Í þessu samhengi er vert að rifja upp skuldaþróun hjá ríkinu.

Skuldir ríkisins hafa verið á niðurleið á undangengnum árum. Hefur ekki lítið verið gumað af því í þessum ræðustól en á sama tíma kemur í ljós að skuldir sveitarsjóðanna eru að aukast og skuldir íslensku þjóðarinnar í heild sinni hafa farið vaxandi. Samkvæmt áætlunum ríkisins, eins og þær hafa birst í gögnum frá Þjóðhagsstofnun og öðrum peningastofnunum ríkisins, spástofnunum, mun verða framhald á skuldaaukningu Íslendinga. Þarna er að finna verulegan hluta þessarar skuldaaukningar hjá sveitarfélögunum, 51,8% milljarðar í árslok 1999.

Peningalegar eignir sveitarfélaganna hafa einnig aukist en þó ekki í takt við skuldirnar og því hefur peningaleg staða sveitarsjóðanna versnað um nærri 21 milljarð síðan 1990, eða um liðlega 72 þús. kr. að meðaltali á íbúa.

Ég ætla ekki að fara nánar í niðurstöður nefndarinnar að öðru leyti en því að rifja upp að nefndarmenn velta því fyrir sér hvað valdi þessum erfiðleikum. Byggðaröskunin hefur reynst kostnaðarsöm, annars vegar fyrir þau sveitarfélög sem missa fólk frá sér, það verða færri einstaklingar eftir til þess að bera sameiginlegar byrðar, en einnig verða þau sveitarfélög sem fá fólkið til sín fyrir búsifjum því það kostar sitt að taka á móti fólkinu, veita því þjónustu og þar fram eftir götunum.

Þá er þess getið að áhrif ýmissa laga og reglugerðarbreytinga hafi leitt til aukinna útgjalda sveitarfélaga án þess að í öllum tilvikum hafi verið tryggt að nægjanlegir tekjustofnar hafi fylgt í kjölfarið. Þá segir að skattalagabreytingar undanfarinna ára hafi skert útsvarstekjur sveitarfélaga og þannig skapað ákveðið ósamræmi á milli þróunar útgjalda og tekna.

Ef við förum lengra aftur í tímann má minna á að tekin var tekjustofn frá sveitarfélögunum, aðstöðugjöldin, það var fyrstu árum tíunda áratugarins, en það ár sem þau voru afnumin nam aðstöðugjaldið, ef ég man rétt, á milli 5 og 6 þús. milljónum króna. Þetta eru ... (Gripið fram í: Væri ekki rétt að ráðherrann hlýddi á þessa sögulegu ... ) Það er rétt, ég hef grun um að hæstv. starfandi félmrh. sé í húsinu og við ræddum það okkar í milli að hann þyrfti að bregða sér frá. Hann hefur reyndar fengið tækifæri til að fá þessar upplýsingar í ræðum annarra þingmanna og ég efast ekki um að hann mun einnig leggja við hlustir. (Gripið fram í: En formaður félmn.?) Formaður félmn., hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, ég efast ekki um að hún er í húsinu og hlýðir á mál mitt en ... (Gripið fram í.) Það er alveg rétt sem fram kemur í frammíköllum hjá hv. þm. að það er eðlilegt, herra forseti, að formaður félmn. sé viðstaddur umræðuna og óska ég eftir því. (Gripið fram í: Og einhver frá stjórnarliðinu, það er nú lágmark.)

Hv. formaður félmn., Arnbjörg Sveinsdóttir, er komin í salinn en henni til upplýsingar get ég getið þess að ég fór nokkrum orðum um þá umræðu sem hefur þegar farið fram um þetta frv., svona sitthvað sem snertir skatta almennt. Síðan hef ég verið að rifja upp á hvaða grunni þetta frv. er reist, á niðurstöðum nefndar sem skipuð var á sínum tíma til að endurskoða lög um tekjustofna sveitarfélaga. Þar kom fram hversu bág staða þeirra væri og hvers vegna og er ég þar kominn að efni þessa frv. En í frv. er lagt til að hámarksútsvarsprósenta sveitarfélaga verði hækkuð og það í tveim áföngum en samtals nemi hækkunin 0,99%, eða tæpu 1%. Fyrir þessu er gerð grein í 5. og 6. gr. frv. Í fyrsta áfanga er lagt til að hámarksheimild til útsvarsálagningar hækki um 0,66% og verði því 12,7% í stað 12,04% eins og nú er.

Í seinni áfanga er lagt til, eða 1. jan. 2002, að hámarksheimild hækki um 0,33% til viðbótar og verði því 13,03% í stað 12,7% miðað við fyrri áfanga.

Þá er gert ráð fyrir breytingu á fasteignasköttum en lagt er til að álagningarstofn fasteignaskatts verði fasteignamat. Breytingin hefði í för með sér með sér verulega lækkaðar álögur fyrir einstaklinga og fyrirtæki utan höfuðborgarsvæðisins en með þessari breytingu er skatturinn lagður á raunverulegt verðmæti fasteigna.

Þetta er eins og ég segi hagsmunamál fyrir fólk utan höfuðborgarsvæðisins. Það segir sig sjálft að sveitarfélögin þar sem einstaklingarnir hagnast með þeim hætti verða af tekjum og er gert ráð fyrir því að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga bæti þeim þetta tekjutap sem er talið verða 1,1 milljarður kr.

Síðan leggur nefndin til, þó það sé ekki í þessu frv., að til sögunnar komi sérstakt framlag úr jöfnunarsjóði, 700 millj. kr. tvisvar á ári.

[19:00]

Að uppistöðu til gengur þetta frv. út á heimild til útsvarshækkana og breytinga á álagningarstofni fasteignaskatts.

Ég vil byrja á að taka undir með stjórnarandstöðunni í umsögnum sínum um þetta frv. en í minnihlutaáliti félmn., sem er undirritað af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni segir m.a., með leyfi forseta:

,,Í fyrsta lagi fela tillögurnar í sér alls ónógar aðgerðir til að rétta við afkomu sveitarfélaganna. Að mati margra þyrftu tekjur sveitarfélaganna að aukast um allt að tvöfalda þá fjárhæð sem ætlunin er að færa þeim með heimildum til hækkunar á útsvari samkvæmt þessu frumvarpi og tillögum tekjustofnanefndar sem ganga aftur í frumvarpinu.``

Ég endurtek: Tekjur sveitarfélaganna þyrftu að hækka um tvöfalda þá fjárhæð sem ætlunin er að færa þeim með heimildum til hækkunar á útsvari. Undir niðurlag greinargerðar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar segir:

,,Niðurstaða 2. minni hluta er sú að hér sé eingöngu um að ræða afar takmarkaða úrlausn hvað varðar tekjuforsendur sveitarfélaga.``

En út á hvað skyldu deilurnar um þetta frv. fyrst og fremst ganga? Ég held það sé aðallega tvennt sem menn ræða hér. Í fyrsta lagi deilir enginn um að nauðsyn beri til að færa tekjur frá ríki yfir til sveitarfélaga. Ríkið hefur á undanförnum árum verið að færa verkefni af herðum sínum yfir á herðar sveitarfélaganna án þess að nægjanlegir tekjustofnar hafi verið látnir fylgja með. (LB: Þess vegna var tekjustofnanefndin sett á laggirnar.) Þess vegna var tekjustofnanefndin sett á laggirnar, það er hárrétt hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni. Um þetta er ekki deilt. Um hitt er deilt hvernig að þessu er staðið. Sveitarfélögunum er gefin heimild til að hækka útsvar sitt um tæpt eitt prósentustig. Á móti kemur síðan ríkissjóður og lækkar tekjuskatt um þriðjunginn af þessari upphæð, þessari tölu, 0,33%. Fari svo að sveitarfélögin nýti útsvarshækkunarheimildina að fullu þá verður um að ræða hækkun á sköttum einstaklinga sem nemur 0,66%.

(Forseti (GÁS): Forseti vill biðja hv. þm. afsökunar á þessari truflun en ráðgert var að fresta fundinum og gera matarhlé á milli kl. 7 og 8. Forseti vill ógjarnan rífa í sundur þráðinn ef hv. þm. hefur einhverja hugmynd um það hvort hann ljúki í næstu framtíð eða fjarri.) Ég held að mér muni ekki reynast erfitt að ná þráðunum saman að loknu matarhléi.

(Forseti (GÁS): Þá skilur forseti það þannig að hv. þm. sé tilbúinn að gera hlé á ræðu sinni.)

Það skal ég gera.