Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 20:01:34 (2323)

2000-11-28 20:01:34# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[20:01]

Ögmundur Jónasson (frh.):

Herra forseti. Við erum að fjalla um frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga. Fram til þessa hef ég farið almennum orðum um þetta efni, minnt á að frv. er byggt á úttekt sem gerð var af nefnd sem skipuð var á sínum tíma um fjárhagsstöðu sveitarfélaganna og tillögum þeirrar nefndar til úrbóta en eins og fram kemur í fylgiskjali með frv. er ekki um það deilt að fjárhagur sveitarfélaganna er bágur enda heildarskuldir þeirra yfir 50 milljarðar kr., 51,8 milljarðar. Hefur skuldin stóraukist á undangengnum árum enda er það svo að það hefur gerst í senn að sífellt fleiri verkefnum hefur verið hlaðið á sveitarfélögin. Verkefni sem voru áður hjá ríkinu eru nú komin til sveitarfélaganna. Þetta hefur gerst án þess að nægir tekjustofnar hafi fylgt með. Þá hefur það einnig gerst að sveitarfélögin hafa verið svipt tekjustofnum. Nægir þar að minna á aðstöðugjöldin sem námu 5.000--6.000 millj. kr. á ári hverju. Á sama tíma og þessu fer fram hefur orðið mikil byggðaröskun í landinu en hvernig sem á hana er litið veldur hún sveitarfélögunum búsifjum, ekki síst þeim sveitarfélögum sem missa fólkið frá sér. Það segir sig sjálft að verði færri eftir til að rísa undir sameiginlegum byrðum þá þyngjast þær byrðar. Einnig hefur komið fram að kostnaðaraukinn er verulegur hjá sveitarfélögum sem taka við fólksstraumnum. Það á t.d. við um Reykjavík.

Ég vitnaði í álit stjórnarandstöðunnar og vitnaði í álit hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem minnir á að tillögurnar feli í sér ónógar aðgerðir til að rétta við afkomu sveitarfélaganna en hann bendir á að tekjur sveitarfélaganna þyrftu að aukast um allt að tvöfalda þá fjárhæð sem ætlunin er að færa þeim með heimildum til hækkunar á útsvari samkvæmt þessu frv. og reyndar einnig tillögum tekjustofnanefndar.

Eins og ég gat um fyrr í máli mínu eru fleiri tillögur frá nefndinni en koma fram í þessu frv., t.d. framlag tvisvar sinnum 700 millj. í hvort skipti í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir undir lok álits síns að frv. feli í sér afar takmarkaða úrlausn hvað varðar tekjuforsendur sveitarfélaganna.

Ég held að óhætt sé að segja að fjárhagsstaða sveitarfélaganna er afar mismunandi og víst að sum þeirra standi frammi fyrir stærri vanda en önnur. Það er t.d. þannig að sveitarfélög, sem hafa þurft að innleysa til sín fjölda félagslegra íbúða án þess að þau hafi tök á því að losna við þær, hafa valdið þeim verulegum erfiðleikum. Þar mætti nefna einn þáttinn sem er óleystur og spurning á hvern hátt ríkisvaldið ætlar að koma að málum vegna þess að ekki er hægt að líta á þá húsnæðisstefnu sem rekin hefur verið í landinu sem einkamál einstakra byggðarlaga eða sveitarfélaga og eðlilegt að ríkissjóður komi á einhvern hátt að þeim málum.

Ég gat einnig um það fyrr í umræðunni og fyrr í ræðu minni og reyndar vék ég að því í umræðu í dag að þetta frv. um tekjustofna sveitarfélaga bæri að skoða með tilliti til annarra frv. um tekjuöflun til samfélagssjóða. Vísa ég þar í frv. sem átti einnig að vera til umræðu í dag um tekjuskatt og eignarskatt. En fyrir liggur á þinginu frv. sem felur í sér lækkun á tekjuskatti. Ég held að nauðsynlegt sé að skoða þessi frv. tvö í heild sinni. Ég var þar kominn í máli mínu að ég var að rifja upp í hverju andmælin gegn þessum skattbreytingum væru fólgin.

Ég held að enginn deili um nauðsyn þess að færa tekjustofna frá ríkinu til sveitarfélaga og að efla tekjustofna sveitarfélaganna. Enginn deilir um nauðsyn þessa. Spurningin er hins vegar sú hvort réttlætanlegt sé við þessar aðstæður að nota tækifærið til að hækka skatta almennt eins og gert er því nýti sveitarfélögin heimildarákvæði til útsvarshækkunar að fullu vegur tekjuskattslækkunin aðeins upp í þriðjunginn af fyrirhugaðri útsvarshækkun, 0,33% af þeim 0,99% sem hækkun til útsvarsheimildar felur í sér. Því er um að ræða skattahækkun upp á 0,66%. Þessu atriði hafa menn verið að andmæla og þá einnig sveitarfélögin, ekki síst á suðvesturhorninu.

Reyndar gat ég ekki um það núna í upprifjun minni að annað veigamikið atriði í þessu frv. er sú breyting sem gerð er á álagningarstofni fasteignaskatta sem verður núna fasteignamat og þá raunverulegt verð fasteignanna, sem er eðlilegt. Þetta gerir ekki mikla breytingu fyrir sveitarfélögin á suðvesturhorninu en fyrir sveitarfélög og einstaklinga annars staðar hefur þetta miklar breytingar í för með sér, umtalsverða skattalækkun fyrir einstaklingana og þar með tekjumissi fyrir sveitarfélögin sem þeim verður bætt upp með framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, 1,1 milljarði kr. að því talið er.

Víða á landsbyggðinni munu menn því njóta skattalækkunar vegna þessa samspils en það mun ekki eiga við um suðvesturhornið. Það eru því svolítil blendnar tilfinningar þegar menn nálgast þessi mál.

Ég held hins vegar að alvarlegasti þátturinn sé ekki einvörðungu skattahækkunin sem þetta frv. felur í sér, heldur það hvernig hún kemur fram. Þar vísa ég til skattleysismarkanna. Ekki er nóg með að verið sé að hækka skatta á launafólk, á almenning, heldur munu skattleysismörkin lækka af völdum þessara breytinga. Eftir því sem skattprósentan hækkar án þess að persónuafslátturinn fylgi með hefur það í för með sér að skattleysismörkin lækka. Þetta er þvert á það sem ríkisstjórnin hefur lofað og gerði hér í mars sl. í tengslum við kjarasamninga sem voru þá í smíðum og kenndir hafa verið við Flóabandalagið og þvert á það sem ríkisstjórnin hefur lýst yfir og lofað.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara yfir allar þær umsagnir sem hafa borist í tengslum við þessi frv. Ég ætla engu að síður að leyfa mér að vitna í örfáar álitsgerðir. Hjá sveitarfélögunum kemur almennt fram andstaða við að tekjuskattur skuli ekki lækkaður til móts við hækkun útsvarsins. Það er gegnumgangandi í umsögnum sveitarfélaganna.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í álitsgerð eða samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur frá 16. þessa mánaðar en þar segir, með leyfi forseta, m.a.:

,,Borgarráð Reykjavíkur fagnar því að loksins skuli hafa fengist viðurkenning ríkisins á þeirri staðreynd að verulega hefur hallað á sveitarfélögin í fjármálalegum samskiptum þeirra við ríkið á undanförnum árum og að tekjustofnar þeirra hafa ekki verið í samræmi við lögskyld og aðkallandi verkefni.``

Þetta er nokkuð sem oft hefur verið deilt um í þessum sal en ég held að enginn geri það lengur. Ég held að enginn deili lengur um það að verulega hafi hallað á sveitarfélögin í samskiptum við ríkisvaldið. Reyndar deila menn enn um upphæðir, núna síðast um tilkostnaðinn við flutning grunnskólans.

Þrjár skýrslur hafa komið fram, allar með mismunandi niðurstöðum, en þær eiga þó eitt sameiginlegt, að í öllum tilvikum, þótt í mismiklum mæli sé, fæst það staðfest að það hallar á sveitarfélögin. Það er staðreynd. Þetta er fyrsta atriðið sem borgarstjórn nefnir í ályktun sinni, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Það var mat fulltrúa sveitarfélaganna í hinni svokölluðu tekjustofnanefnd að tekjuþörf sveitarfélaganna vegna aukinna verkefna og ákvarðana ríkisvaldsins í skattamálum væri um 6--7 milljarðar á ári. Þrátt fyrir að þessi leiðrétting á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga hafi ekki náðst fram telur borgarráð engu að síður að nefndin hafi náð mikilvægum áfanga varðandi endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga sem mun skila sveitarfélögunum á landinu um 2.500 millj. kr. tekjuauka á næsta ári og um 3.750 millj. kr. á árinu 2002 komi tillögur hennar að fullu til framkvæmda. Engu að síður hlýtur borgarráð að gera alvarlegar athugasemdir við að samfara auknum heimildum sveitarfélaga til að hækka útsvar um 0,99% á næstu tveimur árum skuli ríkið ekki hafa áform um að lækka tekjuskattinn nema um 0,33% á næsta ári eða sem nemur 1.250 millj. kr. Tillögurnar munu því hafa í för með sér almenna skattahækkun sem mun bitna harðast á íbúum höfuðborgarsvæðisins.``

Hér er væntanlega vísað í breytingar á álagningarstofni fasteignaskattsins.

[20:15]

Og áfram segir, með leyfi forseta:

,,Það er óviðunandi að leiðréttingu á óréttlátri tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga skuli með þessum hætti velt yfir á íbúa sveitarfélaganna --- jafnvel undir því yfirskini að það sé við sveitarfélögin að sakast.

Borgarráð skorar því á Alþingi að lækka tekjuskatt ríkisins á næstu tveimur árum til jafns við auknar heimildir sveitarfélaga til hækkunar útsvars eða um 0,99%.``

Hér kemur aftur fram að menn skoða almennt bæði þessi frv., frv. um tekjustofna sveitarfélaga og frv. um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem gert er ráð fyrir lækkun á tekjuskatti um 0,33%, í heild sinni, skoða þessi mál heildstætt.

Eins og ég segi þá er það rauður þráður í umsögnum sveitarfélaganna að þau andæfa því að tekjuskatturinn skuli ekki lækkaður til jafns við heimildina til útsvarshækkunar.

Nú vil ég að það komi skýrt fram að ég er mjög eindreginn fylgismaður þess að almannaþjónustunni séu tryggðar nægilegar tekjur, traustir tekjustofnar. Ég er mjög eindregið fylgjandi því og hef farið mjög varlega í að gagnrýna skattahækkanir. Ég hef verið fremur fylgjandi skattahækkunum, að sjálfsögðu að því gefnu að sköttunum sé varið skynsamlega og réttlátlega, t.d. til að búa hér til betra og réttlátara og hagkvæmara húsnæðiskerfi, heilbrigðiskerfi, menntakerfi og áfram mætti telja. En að sjálfsögðu skiptir einnig höfuðmáli hvernig þessara skatttekna er aflað og þá horfa menn náttúrlega til reynslunnar, til þess hvað þessi ríkisstjórn hefur verið að gera, hverjar áherslur hún hefur haft í skattamálum. Fyrir um tíu árum síðan greiddu fyrirtæki á Íslandi yfir 50% tekjuskatt. Nú er sá tekjuskattur kominn niður í 30%. Menn eru hér að föndra með tilraunir í samstarfi við Verslunarráð Íslands, viðskiptaráðuneytið og Verslunarráðið, um svokölluð alþjóðleg viðskiptafélög. Þau eiga ekki að greiða neina 30% tekjuskatta heldur 5% og þau eiga að vera undanþegin stimpilgjöldum, undanþegin eignarskatti.

Annað afrek ríkisstjórnarinnar á liðnum árum er að þrengja tekjustofn fyrir arðgreiðslur af hlutafé. Fræg að endemum er ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að heimila frestun á arðgreiðslum af hlutabréfagróða. Síðan eru mönnum náttúrlega í fersku minni breytingar sem gerðar hafa verið á aðflutningsgjöldum, lækkun á gjöldum fyrir að flytja inn dýrustu bifreiðarnar um hálfa milljón kr. á ári. Það eru þessir hlutir sem menn verða að hafa í huga þegar við ræðum þessar skattkerfisbreytingar. Þá horfum við að sjálfsögðu til skattleysismarkanna fyrst og fremst.

Að sjálfsögðu staðnæmumst við við þá staðreynd að skattgreiðendum skuli fjölga um 2.000--3.000 bara vegna þessara skattkerfisbreytinga. Um 2.000--3.000 manns sem munu greiða skatta, lágtekjufólk fyrst og fremst sem áður var undir skattleysismörkum, vegna þessara skattkerfisbreytinga einna, vegna þess að ríkisstjórnin hirðir ekki um að hækka persónuafsláttinn til samræmis við hækkun á tekjuskattinum. Þetta ætti að vera lágmarkskrafa sem reist er.

Nú ætla ég, herra forseti, að vitna í örstuttu máli í álitsgerðir sem koma frá almannasamtökum. Ég byrja á Öryrkjabandalaginu. Öryrkjarnir staðnæmast við skattleysismörkin og segja undir lok álitsgerðar sinnar, með leyfi forseta:

,,Auk þeirrar þróunar bóta og skattleysismarka sem að framan er um getið hefur fjölmargt annað orðið til að rýra kjör öryrkja á undangengnum árum. Má þar t.d. nefna aukinn lyfja- og lækniskostnað, stóraukinn húsnæðiskostnað, símkostnað og bifreiðakostnað. Í flestum tilvikum er hér um að ræða kjaraskerðingar sem stjórnvöld hafa tekið meðvitaðar ákvarðanir um, ákvarðanir sem skýra þá vaxandi neyð sem hjálparstofnanir vitna nú hver af annarri um.

Af þessum sökum er brýnna en nokkru sinni fyrr að létta skattbyrði af öryrkjum, hvort heldur það verður gert með því að hækka skattleysismörk verulega eða viðurkenna sérstöðu öryrkja með því að undanþiggja örorkulífeyri beinni skatttöku.``

Þetta er úr álitsgerð Öryrkjabandalagsins.

Ég ætla aðeins að vitna í það sem fram hefur komið frá verkalýðshreyfingunni. Eins og menn rekur eflaust minni til, kom hæstv. fjmrh. fram á vordögum, ég held það hafi verið í mars, í tengslum við samninga sem gerðir voru í kringum 10. mars sl., og skýrði þingheimi frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem bar þetta virðulega heiti: Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga á árinu 2000. Hér segir m.a., með leyfi forseta, varðandi skattleysismörkin:

,,Til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga á árinu 2000 og stuðla þannig að auknum stöðugleika í efnahagslífinu á næstu árum mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að persónuafsláttur og skattleysismörk breytist í takt við umsamdar almennar launahækkanir á samningstímabilinu. Hækkunin á árinu 2000 verður þó nokkru meiri. Í þessu skyni verður lagt fyrir Alþingi innan skamms frumvarp til breytinga á lögum um tekjuskatt þar sem kveðið er á um að persónuafsláttur hækki um 2,5% frá 1. apríl 2000. Þessi hækkun kemur til viðbótar við 2,5% hækkun persónuafsláttar 1. janúar sl. þannig að heildarhækkun á árinu 2000 nemur 5%. Enn fremur hækkar persónuafsláttur um 3% 1. janúar árið 2001, um 3% 1. janúar árið 2002 og um 2,25% 1. janúar árið 2003.``

Hvernig skyldi standa á því að ríkisstjórnin leggur áherslu á þetta í yfirlýsingu sem gefin er út í tengslum við kjarasamninga? Hvernig skyldi standa á því? Jú, ástæðan er sú að verkalýðshreyfingin sameinuð hefur um árabil gagnrýnt mjög harðlega að skattleysismörk skuli ekki hafa fylgt almennri launaþróun í landinu. Það hefa þau ekki gert á undangengnum árum og þetta hefur verið mjög harðlega gagnrýnt. Þess vegna var ákveðið í tengslum við síðustu kjarasamninga og til þess að greiða fyrir kjarasamningum að skattleysismörkin skyldu að lágmarki hækka í takt við umsamdar launahækkanir, ekki launaþróunina almennt, heldur lágmarks umsamdar launahækkanir. Ef skattleysismörkin ættu að hækka í samræmi við launaþróun almennt og launaskrið, ætti hækkunin að vera miklu meiri, talsvert meiri. Ætli það sé ekki um 7% á þessu ári sem launaskriðið hefur orðið? Lágmarks umsamdar launahækkanir eru miklu minni. En þetta varð niðurstaðan, að skattleysismörkin skyldu fylgja lágmarks umsaminni launaþróun.

Þess vegna er það algert lágmark þegar skattprósentan er hækkuð núna, að þá fylgi skattleysismörkin með. Það er lágmark. Þýðir það að skattbyrðin muni þá ekki aukast? Nei, það þýðir það ekki að sjálfsögðu vegna þess að ef skattprósentan er hækkuð þá munu skattaálögur aukast. En það þýðir hins vegar að hjá þeim allra lægst launuðu mun ekki verða breyting af þessum sökum. Það er það sem mun gerast. Og það er það sem Öryrkjabandalagið er að leggja áherslu á og það er það sem verkalýðshreyfingin er að leggja áherslu á.

Í yfirlýsingu sem kom frá Alþýðusambandi Íslands í gær segir m.a., með leyfi forseta:

,,Verði fyrirætlanir stjórnvalda í útsvars- og skattamálum að veruleika þyngist skattbyrði launafólks og markmið kjarasamninga á almennum vinnumarkaði fjarlægjast. Sem dæmi um afleiðingar fyrirhugaðra breytinga má nefna að árið 2003 hyrfi rétt tæplega fjórðungur af almennum launahækkunum þess árs í skattahækkunina eina. Verði ekki gripið til annarra ráðstafana er einnig ljóst að ríkisstjórnin mun ganga á bak orða sinna um þróun skattleysismarka sem gefin voru í yfirlýsingu hennar 10. mars sl. í tengslum við kjarasamninga.``

Það er það sem ég vitnaði til áðan. Áfram segir, með leyfi forseta:

,,Á næsta ári er gert ráð fyrir að útsvar geti hækkað um 0,66 prósentustig á móti hyggjast stjórnvöld aðeins lækka tekjuskattshlutfallið um 0,33 prósentustig. Árið 2002 getur útsvar hækkað um 0,33 prósentustig en tekjuskattshlutfallið á ekkert að lækka til að mæta því.``

Hér segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Niðurstaðan er þyngri skattbyrði launafólks á sama tíma og spár gera ráð fyrir að verulega hægi á kaupmáttaraukningunni. Auknar skattaálögur sem draga úr ráðstöfunartekjum heimilanna ganga þvert gegn markmiðum kjarasamninganna á almenna vinnumarkaðnum sem gilda víðast hvar til ársins 2003.

En skattbyrði launafólks þyngist ekki aðeins beint vegna skattahækkunarinnar sjálfrar heldur bætist við að skattleysismörk munu að öðru óbreyttu lækka að raungildi. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. mars sl. vegna kjarasamninganna er kafli sem ber yfirskriftina ,,Skattleysismörk fylgja launaþróun``. Til að skattleysismörkin fylgi almennum lágmarkshækkunum kjarasamninga á almennum vinnumarkaði þyrftu þau að hækka um 3% í ársbyrjun 2001 og aftur um 3% 2002. Skattahækkunin hefur hins vegar þau áhrif að skattleysismörkin hækka aðeins um 2,1% sem er raunlækkun eins og ASÍ hefur ítrekað bent á. Þessi staðreynd sést m.a. á því að vegna fyrirhugaðra breytinga mun skattgreiðendum fjölga um meira en 2.100 eða ríflega 8% strax á næsta ári.``

Þetta er sú tala sem ég nefndi, þ.e. að um á milli 2.000 og 3.000 manns mundi fjölga í hópi skattgreiðenda. (Gripið fram í.) Þetta eru breiðu bökin sem hæstv. ríkisstjórn hefur fundið. Þetta er fólkið sem á að niðurgreiða fjármagnsliðið sem ríkisstjórnin hefur verið að hygla á undanförnum árum. Þetta er fólkið sem á að niðurgreiða þann mannskap. Það er fundið hér.

Enn segir í álitsgerð Alþýðusambands Íslands:

,,Það er sérstakt áhyggjuefni að stjórnvöld skuli ákveða þyngingu skattbyrða á launafólk nú þegar allar spár um efnahagshorfur benda til þess að mjög fari að draga úr kaupmáttaraukningunni og aðstæður raunar orðnar þannig að tvísýnt er hvort verjast megi kaupmáttarrýrnun. Þetta er enn alvarlegra í ljósi þess að stjórnvöld létu hjá líða að grípa til afgerandi aðgerða til að draga úr þenslu þegar öll hættumerki blöstu við á árunum 1998 og 1999. Að mati hagdeildar ASÍ er það ein af skyldum stjórnvalda að reyna að viðhalda stöðugleika með því að draga úr hagsveiflum í stað þess að vinna með þeim og ýkja enn. Það er einfaldlega röng hagstjórn.``

Í niðurlagi greinargerðarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Hagdeild ASÍ bendir einnig á að á sama tíma og verið er að leggja til þyngri skattbyrðar á launafólk er verið að ræða af mikilli alvöru mikla lækkun eignarskatta og fjármagnsskatta.``

Þetta er úr greinargerð Alþýðusambands Íslands.

Mér finnst ástæða til að taka sérstaklega fram að í máli hagfræðings Alþýðusambands Íslands, Rannveigar Sigurðardóttur, kom mjög ákveðið fram að Alþýðusambandið væri ekki að fara fram á skattalækkun. Það væri ekki verið að fara fram á skattalækkun. Það væri verið að mótmæla skattahækkun. Það kom mjög afdráttarlaust fram í máli hennar.

[20:30]

Síðan hefur einnig borist greinargerð frá BSRB og í álitsgerð kemur einnig fram mikilvægi þess að líta á þessi frv. saman. Hér segir, með leyfi forseta:

,,BSRB hefur jafnan lagt áherslu á mikilvægi þess að tryggja ríki og sveitarfélögum trausta tekjustofna til að standa straum af mikilvægri samfélagsþjónustu. Jafnframt hafa samtökin bent á mikilvægi þess að skattar eru tæki til tekjujöfnunar í þjóðfélaginu og nauðsynlegt sé að hyggja að forgangsröðun við skattlagningu svo fyllsta réttlætis sé gætt.

BSRB hefur margoft lagt áherslu á að sveitarfélögin hafi verið svipt mikilvægum tekjustofnum á liðnum árum jafnframt því sem auknar byrðar hafa verið settar á þeirra herðar. Í þessu samhengi nægir að nefna afnám aðstöðugjalds og hvað ný verkefni áhrærir má nefna grunnskólann. Margt bendir til þess að yfirfærsla grunnskólans og annarra verkefna hafi reynst mörgum sveitarfélögum erfið enda bera stórauknar skuldir sveitarfélaganna þess vott að fjárhagur þeirra stendur ekki traustum fótum.``

Síðan er vísað í frv. um tekjustofna sveitarfélaga og segir hér í framhaldinu, með leyfi forseta:

,,Með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að sveitarfélögin fái aukið svigrúm til útsvarshækkunar, alls um 0,99% og geti hækkunin komið í áföngum 0,66% frá 1. jan. 2001 og 0,33% ári síðar.

Í frumvarpinu er lagt til að stofn til álagningar fasteignaskatts á allar fasteignir verði fasteignamat þeirra. Þetta mun ekki hafa teljandi áhrif á fasteignaeigendur í Reykjavík og nágrenni en fasteignaeigendur utan höfðuborgarsvæðisins munu hins vegar hagnast á því að raunvirði fasteigna þeirra verði álagningarstofn fasteignaskatts en fram til þessa hefur þeim verið gert að greiða fasteignaskatt sem lagður er samkvæmt stofni langt umfram raunvirði eigna þeirra. Tekjutapi sveitarfélaga á landsbyggðinni vegna þessarar breytingar verður mætt með auknu framlagi ríkissjóðs í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þessar breytingar ganga í réttlætisátt.``

Síðan er vísað til þess að þetta frv. um tekjustofna sveitarfélaga beri að skoða í samhengi við frv. um tekjuskatt og eignarskatt eins og áður er vikið að en þar er gert ráð fyrir lækkun á tekjuskattshlutfallinu úr 26,41% í 26,08, eða um 0,33%. Hér segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Þessi tekjuskattslækkun vegur ekki upp heimild til útsvarshækkunar. Afleiðingin er hærri tekjuskattar á einstaklinga sem að öllu óbeyttu hefur í för með sér rýrnun á ráðstöfunartekjum þeirra. Sums staðar á landsbyggðinni mun lækkun á fasteignasköttum vega þarna upp á móti en það mun ekki eiga við um Reykjavík eins og áður er vikið að. Samkvæmt breytingartillögum við ofangreint frumvarp á þingskjali 243, 196. mál,`` --- hér er vísað í frv. sem Samfylkingin hefur sett fram og er hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson 1. flm., en samkvæmt tillögum sem felast í því frv. --- ,,er gert ráð fyrir að tekjuskattslækkunin nemi 0,99% og vegi þannig upp á móti heimild sveitarfélaganna til hækkunar á útsvari.``

Í álitsgerð BSRB segir, með leyfi forseta:

,,Þetta er eðlilegt sé ætlunin einvörðungu að færa til tekjustofna en ekki hækka skatta.``

Í framhaldinu segir enn fremur:

,,Mikilvægt er að hyggja að áhrifum þessara skattbreytinga á skattleysismörk. Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í mars og lagabreytingum í kjölfarið er gert ráð fyrir að skattleysismörk hækki samkvæmt lágmarks umsömdum launahækkunum sem þá hafði verið gengið frá. Þessi hækkun skattleysismarka er innan þeirrar launaþróunar sem síðan hefur orðið og hlýtur það að vera lágmarkskrafa að nái þær breytingar sem hér er gert ráð fyrir fram að ganga verði þær ekki til að skerða skattleysismörk enn frekar. Til þess að skattleysismörk haldist óbreytt miðað við hækkun tekjuskatta um 0,33% 1. jan. 2001 og aftur sama hlutfall ári síðar þyrfti persónuafsláttur að hækka umfram það sem áður hefur verið ákveðið um 217 krónur í byrjun næsta árs, 447 krónur í ársbyrjun 2002 og 457 krónur 2003, sjá meðfylgjandi töflu`` --- sem hagdeild BSRB hefur sent frá sér þar sem gerð er grein fyrir þessum útreikningum. Samtökin telja með öðrum orðum að það sé lágmarkskrafa að persónuafslátturinn hækki sem þessu nemur til að tryggja að skattleysismörkin haldist óbreytt. Hér er ekki verið að tala um að hækka skattleysismörkin. Það er verið að leggja það til að gerðar verði breytingar á persónuafslættinum sem tryggi að skattleysismörkin haldist óbreytt.

Áfram segir í greinargerð BSRB, með leyfi forseta:

,,BSRB hefur jafnan lagt á það ríka áherslu að skattar og skattkerfisbreytingar séu skoðaðar heildstætt. Full ástæða er til að mótmæla harðlega forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Hún hefur þrengt tekjustofna vegna arðgreiðslna, heimilað frestun á skattlagningu hagnaðar af hlutafé, innleitt skattahagræði vegna valréttarsamninga í hlutafélögum, lækkað aðflutningsgjöld af dýrum bifreiðum og margvíslegum lúxúsvarningi svo nokkur dæmi séu nefnd. Því miður hefur lítillar viðleitni orðið vart til að koma til móts við kröfur launafólks um fjölgun skattþrepa og aðra þætti sem mættu verða til tekjujöfnunar. Í ljósi þessa mótmælir BSRB fyrirhuguðum skattbreytingum.``

Hér hafa verið færð mjög ítarleg rök fyrir því að ástæða sé til að gera á þessu bragarbót.

Tillögur okkar úr minni hluta efh.- og viðskn. þingsins gengu út á að smíðaður yrði heildstæður skattapakki sem tryggði hag launafólksins. Þar hefði þurft að tryggja tvær forsendur. Í fyrsta lagi hefði verið eðlilegt, og þar tek ég undir með meiri hluta sveitarfélaga í landinu, að tekjuskatturinn væri lækkaður til jafns við heimildir til sveitarfélaganna til útsvarshækkunar og það er algert grundvallaratriði að persónuafslátturinn verði hækkaður á þann veg að hann tryggi óbreytt skattleysismörk.

Undir lok álitsgerðar BSRB segir, með leyfi forseta:

,,Samtökin leggja höfuðáherslu á tvennt:

Skattheimta verði ekki aukin á launafólk nema að undangengnum viðræðum við heildarsamtök launafólks sem tryggi a) að byrðum sé skipt þannig að ásættanlegt sé, b) að gripið sé til hliðarráðstafana í þágu þeirra sem búa við erfið kjör. BSRB hefur jafnan lýst vilja til slíkra viðræðna og ítrekar hér með óskir í þessa veru.

Í öðru lagi er það algert grundvallaratriði að skatthlutfall verði ekki hækkað án samsvarandi breytinga á persónuafslætti til að tryggja að skattleysismörk lækki ekki vegna breytinga á álagningarhlutfalli.``

Síðan er þess að geta að með álitsgerðum ASÍ og BSRB fylgja ítarlegir útreikningar þar sem sýnt er fram á hver skerðingin er á ráðstöfunartekjum launafólks vegna þessara fyrirhuguðu skattabreytinga og hvað þurfi að gerast til að verja launafólk.

Ég held að það sé alveg sýnt, herra forseti, að ef um þessar tillögur á að verða nokkur friður á Alþingi, er alger lágmarkskrafa að persónuafslátturinn verði færður upp þannig að skattleysismörkin haldist óbreytt. Það held ég að sé alger lágmarkskrafa. Hitt sem þarf að gerast og er í samræmi við vilja yfirgnæfandi meiri hluta sveitarfélaganna í landinu og í samræmi við yfirlýstan vilja samtaka launafólks, er að tekjuskattslækkun og heimildir til útsvarshækkunar séu jafnmiklar þannig að ekki verði um skattahækkun að ræða vegna þessara breytinga heldur einvörðungu flutning á tekjustofnum frá ríki til sveitarfélaga sem enginn deilir um að þurfi að eiga sér stað.

Hitt er svo annað mál að ég er þess fýsandi að taka skattkerfið til endurskoðunar. Mér finnst ekkert heilagt í þeim efnum annað en það eitt að okkur beri að standa vörð um hag almenns launafólks og ekki síst þeirra sem búa við erfiðust kjör. Það er því miður ekki gert með þessum skattkerfisbreytingum. Verið er að fjölga skattgreiðendum um rúmlega tvö þúsund, þeir eru á þriðja þúsund sem koma til með að greiða skatt vegna þessara breytinga einna, fólk sem hefði að öðrum kosti ekki greitt skatta.

Það er því lágmarkskrafa, herra forseti, að þessi mál verði skoðuð heildstætt. Út á það gengu kröfur okkar í minni hluta efh.- og viðskn. á margumræddum fundi nefndarinnar í gærkvöld. Við vorum ekki að leggja það til að þessum skattbreytingum yrði frestað. Við vorum að leggja til að þess yrði freistað að ná heildstæðri lausn sem sátt væri um. Þar vísa ég sérstaklega til Öryrkjabandalagsins, til verkalýðshreyfingarinnar, til ASÍ og til BSRB.

Ég veit hins vegar ósköp vel hvar það er sem þessi ríkisstjórn leitar einkum sátta. Hún er ánægð ef Verslunarráðið gefur blessun sína, ef Samtök atvinnulífsins gefa blessun sína, þá er ríkisstjórnin hæstánægð. En það er svolítið undarlegt að nær allar breytingar, sem hún hefur ráðist í eða haft forgöngu um, hafa mætt andstöðu frá almannasamtökum, frá Öryrkjabandalaginu, frá Alþýðusambandinu, frá BSRB og öðrum samtökum launafólks. Þaðan hafa mótmælin komið. Það er úr röðum þeirra sem áheyrendapallarnir hafa verið fylltir en þeir hafa ekki verið þaulsetnir af fulltrúum Verslunarráðsins eða Samtaka atvinnulífsins. Þessir aðilar vita sem er að þeir eiga fulltrúa í þessum sal og meiri hlutinn sem er hér á þingi fylgir þeim að málum. Það væri óskandi að sá tími renni fljótt upp að breyting verði þar á.