Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 20:42:49 (2324)

2000-11-28 20:42:49# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[20:42]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við höfum verið að ræða um frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga í dag alveg frá því þingfundur hófst rétt eftir hádegið og hefur ýmislegt komið fram í þeirri umræðu sem ég ætla ekki að endurtaka. Áður en ég hef mál mitt vildi ég fá að vita hvort að hæstv. starfandi félmrh. er í húsinu.

(Forseti (ÁSJ): Hæstv. starfandi félmrh. er ekki í húsinu.)

Ég hefði talið fulla ástæðu til þess að hann væri viðstaddur umræðuna. Það hefur vakið athygli að fáir þingmenn úr flokki hans hafa verið viðstaddir umræðuna sem á nú að vera á forræði Framsfl.

(Forseti (ÁSJ): Forseti mun láta athuga hvort starfandi félmrh. er væntanlegur.)

Eins og komið hefur fram í umræðum um þessa lagabreytingu er stórfelld skuldasöfnun sveitarfélaga undanfarin ár staðreynd og mikill hallarekstur sveitarfélaganna er vegna þess að tekjurnar hafa ekki dugað til lögbundinna verkefna og eðlilegra verkefna þeirra. Það kemur mjög skýrt fram í skýrslu tekjustofnanefndar sem félmrh. skipaði 2. júní 1999 og hefur verið til umræðu í dag. Þessi hallarekstur hefur leitt til mikillar skuldasöfnunar og hafa sveitarfélögin orðið að fjármagna þær með lánum.

[20:45]

Eins og kom fram í 1. umr. og einnig hjá félmn. þegar málið var til umræðu þá er ljóst að það hafa orðið ýmsar skattalagabreytingar og ýms ný lög verið sett og nýjar reglugerðir sem hafa verið mjög útgjaldaaukandi fyrir sveitarfélögin án þess að tekjur hafi komið á móti. Vísa ég til ræðu minnar við 1. umr. um allar þær breytingar á lögum og reglugerðum sem hafa orðið til þess að íþyngja fjárhag sveitarfélaganna án þess að gert væri ráð fyrir að það kostaði nokkuð.

Ég vil einnig benda á að nýverið kom fram svar við fyrirspurn hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur um kostnað sveitarfélaganna vegna EES-samninga og verulegar fjárhæðir hafa komið til vegna þeirra. Sveitarfélögin hafa einnig þurft að greiða aukin framlög í Atvinnuleysistryggingasjóð, til Innheimtustofnunar sveitarfélaga, framlög til húsnæðismála og húsaleigubótakerfisins svo ekki sé minnst á kostnað sveitarfélaganna vegna hinna miklu búferlaflutninga sem hafa átt sér stað undanfarið. Það er ekki aðeins að það sé erfitt fyrir litlu sveitarfélögin þar sem fólki hefur fækkað, það hefur náttúrlega komið niður á þeim með minni tekjum til sveitarfélaganna, heldur hefur það ekki síður verið íþyngjandi fyrir þau sveitarfélög þangað sem fólk hefur flust, þar sem fólki hefur fjölgað. Fram hefur komið að það kostar sveitarfélag að taka á móti hverjum nýjum aðfluttum einstaklingi á milli 1 og 2 millj. Fyrir hvern einasta nýjan einstakling sem flyst til sveitarfélagsins kostar þetta þær upphæðir. Þetta eru því mjög mikil útgjöld sem sveitarfélögunum er ekki bætt upp.

Það er alveg ljóst að þær tillögur sem liggja hér fyrir svara ekki núverandi fjármagnsþörf sveitarfélaganna. Án þess að ég ætli að fara ítarlegar út í þær tillögur þá kom mjög skýrt fram í félmn. að þau sveitarfélög, nánast flestöll þau sveitarfélög sem skiluðu umsögnum til nefndarinnar, ætla að nýta sér þá hækkun á útsvari sem heimiluð er. Þar má nefna öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem hyggjast nýta sér þessa hækkun, nánast öll. Það kom og fram í máli fulltrúa frá Sambandi ísl. sveitarfélaga í félmn. að þau hvettu sveitarfélögin til að fullnýta sér þessa heimild. Því er ljóst að þessar breytingar hafa í för með sér skattahækkun á suðvesturhorni landsins. Þetta hefur í för með sér skattahækkun á þá sem búa í þéttbýlinu.

Ef heimildir eru nýttar hjá sveitarfélögunum á suðvesturhorninu, eins og þau munu gera í allflestum tilvikum, þá gæti það þýtt skattahækkanir í kringum 1,6 milljarða á þessu svæði þar sem um 160 þúsund manns búa. Það þýðir næstum 10 þús. kr. kr. hækkun á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu, 10 þús. kr. hækkun að meðaltali á hvern einasta íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Einnig hefur komið fram, t.d. hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem talaði hér fyrr í dag, að mjög margir munu fara að greiða skatt sem ekki greiddu skatt áður. Það hefur reyndar komið fram í máli fleiri ræðumanna hér í dag. Talað er um að það séu á milli tvö og þrjú þúsund manns sem muni fara að greiða skatt sem ekki greiddu skatt áður. Auðvitað vitum við alveg á hvaða hópum þetta mun bitna. Þetta mun bitna á einstæðum foreldrum, öryrkjum, öldruðum og tekjulágu fólki. Öryrkjar t.d. eru með frá 50 þús. kr., ef þeir eru í sambúð, og upp í 70 þús. kr. í tekjur á mánuði og 70 þús. kr. öryrki sem býr einn er farinn að borga skatt. Hann borgar tugi þúsunda í skatt á ári nú þegar og síðan munu koma á hann auknar álögur eins og fram hefur komið mjög skýrt í efh.- og viðskn.

Ég vil einnig minna á fréttir í kvöld í fjölmiðlum þar sem fram kom að ASÍ varar við og mótmælir þessum breytingum sem eru að verða hér að lögum án þess að tekið sé tillit til útsvarshækkunar. Þeir vara við þessum skattahækkunum og benda á að skattbyrði launþega með 70 þús. kr. tekjur mun aukast um 7 þús. kr. á ári og maðurinn með 110 þús. kr. mun fara að greiða um 10 þús. kr. á ári. Þetta kemur einnig fram í áliti BSRB sem var lagt fyrir efh.- og viðskn. og hv. þm. Ögmundur Jónasson formaður BSRB benti einmitt á í ræðu sinni hér á undan.

Í áliti sem kom frá hjá Öryrkjabandalagi Íslands og rætt var einmitt á fundi félmn. þegar þetta mál var til umræðu var bent á stöðu öryrkja og að þeir geti ekki tekið á sig frekari skattahækkanir. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa úr áliti Öryrkjabandalags Íslands sem barst félmn.:

,,Svo sem félagsmálanefnd er kunnugt hefur þróun skattleysismarka verið á þann veg síðasta áratug að jafnvel þeir öryrkjar sem ekkert hafa nema bætur almannatrygginga eru farnir að greiða af þeim beinan skatt svo nemur tugum þúsunda á ári hverju. Þetta gerist þrátt fyrir þá óhagganlegu staðreynd að örorkulífeyrir og tekjutrygging hafa dregist verulega aftur úr þróun bæði lágmarkslauna og launavísitölu. Við svo búið sér Öryrkjabandalagið sér ekki fært að styðja frumvarp sem felur í sér aukna skattbyrði nema tryggilega sé frá því gengið að öryrkjum verði bætt hún upp með öðrum hætti.

Auk þeirrar þróunar bóta og skattleysismarka sem að framan er um getið hefur fjölmargt annað orðið til að rýra kjör öryrkja á undangengnum árum. Má þar t.d. nefna aukinn lyfja- og lækniskostnað, stóraukinn húsnæðiskostnað, símkostnað og bifreiðakostnað. Í flestum tilvikum er hér um að ræða kjaraskerðingar sem stjórnvöld hafa tekið meðvitaðar ákvarðanir um, ákvarðanir sem skýra þá vaxandi neyð sem hjálparstofnanir vitna nú hver af annarri um.

Af þessum sökum er brýnna en nokkru sinni fyrr að létta skattbyrði af öryrkjum, hvort heldur það verður gert með því að hækka skattleysismörk verulega eða viðurkenna sérstöðu öryrkja með því að undanþiggja örorkulífeyri beinni skatttöku.``

Þetta er álit Öryrkjabandalags Íslands, herra forseti, á þessu frv. sem við ræðum hér og sýnir það glögglega hvernig skattbyrðin mun aukast á lágtekjuhópunum og öryrkjum. Sama á auðvitað við um aldraða sem hafa litlar eða engar aðrar tekjur en frá Tryggingastofnun og mun því skattbyrðin aukast mjög á þetta fólk.

Þingmenn Samfylkingar hafa lagt fram breytingartillögu við þann hluta þessa þingmáls sem er til umfjöllunar í efh.- og viðskn. þar sem lagt er til að tekjuskattur verði lækkaður á móti útsvarshækkuninni og er ekki hægt að segja annað en að nánast öll sveitarfélög taki undir þá breytingartillögu. Það kemur fram í ályktunum sem eru samþykktar samhljóða hjá sveitarfélögunum að þeir leggja þetta til

Herra forseti. Ég vil í tilefni af því að hv. þm. Gunnar Birgisson, bæjarfulltrúi í Kópavogi, er viðstaddur þessa umræðu lesa ályktun sem samþykkt var og undirrituð af öllum bæjarfulltrúum bæjarstjórnar Kópavogs þann 14. nóv. sl., en þar er einmitt tekið undir þessa tillögu okkar þingmanna Samfylkingarinnar. Ályktunin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Bæjarstjórn Kópavogs skorar á Alþingi að afgreiða breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga nú á haustþingi án þess að það hafi í för með sér almennar skattahækkanir á íbúa höfuðborgarsvæðisins. Það verður best gert með því að lækka tekjuskattsprósentuna jafnt og nemur hækkun á útsvarsprósentunni. Tryggt verði að ný lög taki gildi 1. janúar árið 2001. Jafnframt telur bæjarstjórn Kópavogs að tryggja beri sveitarfélögum nægilega tekjustofna til þess að sinna lögbundnum verkefnum sínum. Enn fremur telur bæjarstjórn Kópavogs að bæta beri sveitarfélögum upp tekjuskerðingu sem þau hafa orðið fyrir undanfarin ár.

Ljóst er að sveitarfélögin hafa ekki nægilega tekjustofna til að sinna sínum lögbundnu verkefnum. Þá er ljóst að endurskoða þarf hlutverk jöfnunarsjóðs, en umfang hans er orðið um 6 milljarðar kr. á ári. Leita ber leiða til að gera sveitarfélögin fjárhagslega sjálfstæðari og síður háð framlögum úr jöfnunarsjóði.``

Þetta er álit frá bæjarstjórn Kópavogs sem barst félmn. er hún fjallaði um málið. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig hv. þm. Gunnar Birgisson greiðir atkvæði um þessa ályktun bæjarfulltrúans Gunnars Birgissonar. Það kemur í ljós á morgun þegar greidd verða atkvæði um þetta mál.

Annars verð ég að segja, herra forseti, að mér finnst sérkennilegt að sá hluti málsins sem snýr að tekjustofnum sveitarfélaga skuli ekki vera samferða skattalega þætti málsins sem er hjá efh.- og viðskn. Talað var um það hér við umræðuna og einnig í nefndinni að þessi mál yrðu samferða og lögð var mikil áhersla á að afgreiða úr efh.- og viðskn. þann hluta málsins í gærkvöldi. En síðan hefur ekki bólað á málinu í þingsal eða á dagskrá þingsins og það er ákaflega sérkennilegt að þau skuli ekki fylgjast að.

Þess má líka geta að borgarstjórn Reykjavíkur hefur ályktað í sömu veru og önnur sveitarfélög, svipað og bæjarstjórn Kópavogs. Álit borgarstjórnar Reykjavíkur hefur verið lesið hér upp þannig að ég tel ekki ástæðu, herra forseti, til þess að endurtaka það. Það er nákvæmlega í sömu veru og álit Kópavogs. En ég vil geta þess, herra forseti, að í niðurlagi ályktunar borgarstjórnar Reykjavíkur segir:

,,Borgarráð skorar því á Alþingi að lækka tekjuskatt ríkisins á næstu tveimur árum til jafns við auknar heimildir sveitarfélaga til hækkunar útsvars eða um 0,99%.``

Það er nákvæmlega í þessa veru sem breytingartillaga okkar sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson er 1. flm. að, hljóðar.

Hið sama segir Hafnarfjarðarbær, en í áliti þaðan til félmn. er bent á og segir strax:

,,Hafnarfjarðarbær mun að sjálfsögðu nýta sér heimild til hækkunar útsvarsprósentu frá næstu áramótum. Annað væri óábyrgt í ljósi þeirra miklu og nauðsynlegu framkvæmda sem bæjarfélagið stendur að. Það er hins vegar ljóst að áðurnefnd hækkun útsvarsins nægir engan veginn til að mæta þeim áhrifum sem ný lög og reglugerðir hafa rýrt fjárhag bæjarfélagsins á síðustu árum.

[21:00]

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 7. nóvember sl. var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóma:

,,Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að skora á Alþingi að samfara auknum heimildum til hækkunar útsvars, 0,99% á næstu tveimur árum, lækki ríkisvaldið tekjuskatt jafnmikið. Það er ljóst að í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga hefur hallað á sveitarsjóðina og er það viðurkennt í niðurstöðum tekjustofnanefndar sveitarfélaga. Ástæður þessa eru m.a. ákvarðanir ríkisvaldsins og Alþingis í skattamálum og enn fremur varðandi kröfur um aukna kostnaðarsama þjónustu sveitarfélaga, án þess að tekjur hafi fylgt. Lætur nærri að tekjuþörf sveitarfélaga af þessum sökum liggi á bilinu 5--6 milljarðar árlega. Um þetta er ekki deilt. Auknar hækkunarheimildir í útsvari til handa sveitarfélögunum mæta að hluta til þessum tekjuvanda sveitarsjóðanna. Hins vegar er óviðunandi að þessari sannanlegu tekjuþörf sveitarfélaga sé mætt með auknum álögum á íbúa sveitarfélaganna. Þess vegna er mikilvægt að tekjuskattur ríkisins lækki til jafns við hækkun útsvars. Með þeim hætti er leiðrétt að hluta óréttlát tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga, en án þess að skattgreiðendur borgi brúsann, án þess að komi til skattahækkana.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar skorar á alþingismenn að verða við þessum réttmætu ábendingum.````

Í þessa veru eru nánast flestar umsagnir til félmn.

Ég tek undir það að ... (ArnbS: Ertu búin að lesa frá Reykjavík?) Álit frá Reykjavík var lesið fyrr þannig að ég tel ekki ástæðu til þess að endurtaka það en ef hv. þm., formaður félmn., vill fá að heyra það álit mun ég verða við því að lesa það upp fyrir hv. þm. En ég hefði nú haldið að hv. þm., sem formaður félmn. hefði lesið yfir það álit, þó full ástæða hefði verið til að lesa það einnig upp.

Herra forseti. Ég tek undir þá afstöðu að taka þurfi tekjustofna sveitarfélaga reglulega til endurskoðunar og þess vegna er mikilvægt að áframhald verði á þeirri umræðu og vinnu við endurmat tekjustofna sveitarfélaga sem er hafin. Það kemur einmitt fram í fjölda umsagna frá sveitarfélögunum að mikilvægt sé að breikka tekjustofna sveitarfélaga þannig að sveitarsjóðirnir hafi einnig tekjur af óbeinum sköttum.

Einnig er mikilvægt að taka upp og endurskoða hlutverk jöfnunarsjóðs vegna mikilla og stóraukinna umsvifa hans og munu þingmenn Samfylkingarinnar hafa frumkvæði að tillögugerð í þá veru að skoða hlutverk jöfnunarsjóðsins.

Ég fagna komu hæstv. starfandi félmrh. Það er ánægjuefni að hann skuli sjá ástæðu og tíma til að koma hér. Vissulega er full ástæða fyrir hv. þm. og hæstv. ráðherra að vera viðstaddan umræðuna enda stórmál á ferðinni.

Eitt var það sem kom nokkuð sérstakt inn í nefndina en það var erindi frá hæstv. félmrh. þar sem hann óskar eftir ákveðinni brtt. þar sem lagt er til að inn komi styrkur úr jöfnunarsjóði til vatnsveitu lögbýla og var það ákaflega sérkennileg afgreiðsla, verður að segjast eins og er, og kom það m.a. Sambandi íslenskra sveitarfélaga í opna skjöldu þegar þeir komu á fund nefndarinnar og þessi brtt. var borin undir þá. En í umsögn sem nefndin fékk frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um þá breytingu kemur fram að þeir eru mjög andvígir því að sú brtt. verði samþykkt. Verð ég nú að segja að ég tek heils hugar undir það. Það er óeðlilegt að einstaklingar hafi þannig aðgang að jöfnunarsjóði en í tillögu ráðherrans, sem meiri hluti nefndarinnar flytur, er gert ráð fyrir því að Bændasamtökin ákvarði eða komi með tillögur um úthlutun 25 milljóna úr jöfnunarsjóði og erum við fulltrúar Samfylkingarinnar í félmn. andvíg þessari brtt. Segir í nál. okkar um þetta mál:

,,Hvað varðar breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar að frumkvæði félagsmálaráðherra, um styrk úr jöfnunarsjóði til vatnsveitu lögbýla, telur 1. minni hluti það mikilvægt að bændur eigi kost á hreinu og góðu vatni. Hins vegar var þetta verkefni landbrn. og telur 1. minni hluti að svo eigi að vera áfram. Þá orkar einnig tvímælis að Bændasamtökin séu orðin ígildi sveitarfélags með sérstakri aðkomu að jöfnunarsjóðnum.``

Ég verð að segja að ekki er hægt annað en að taka undir álit Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem þeir benda á að verði þessi brtt. samþykkt sé verið að skapa mjög varhugavert fordæmi hvað varðar ýmsar aðrar framkvæmdir einstaklinga sem sveitarfélög sinna ekki beint.

Við styðjum aftur á móti þá breytingu að álagningarstofn fasteignaskatts verði fasteignamat en lækkaðar álögur fasteignaskatts nema á suðvesturhorni landsins hafa engin áhrif á heildarafkomu sveitarfélaga í ljósi þess að ríkissjóður mun greiða þeim sveitarfélögum sem verða fyrir tekjulækkun það sem á vantar eða 1,1 milljarð kr. í gegnum jöfnunarsjóð.

Eins og komið hefur fram í máli okkar þingmanna Samfylkingarinnar, sem höfum tekið til máls í þessu þingmáli, er það ljóst að málið er vanreifað eins og það liggur fyrir. Þar sem brtt. Samfylkingarinnar hefur ekki komið inn eða sá hluti málsins sem varðar efh.- og viðskn., og ljóst virðist að menn ætli ekki að taka undir þá brtt. sem Samfylkingin hefur lagt fram þar um að tekjuskattur lækki til jafns við auknar heimildir í útsvari, getum við ekki samþykkt þessa auknu heimild á útsvari úr því að ekki á að samþykkja lækkun tekjuskatts á móti. Það er alveg ljóst á því sem fram hefur komið um málið að þetta frv. þýðir aukna skattahækkun á launafólk í landinu og þá pólitísku ábyrgð verður ríkisstjórnin og stjórnarliðar að bera.

Herra forseti. Ég verð að segja það að ég hef verulegar áhyggjur af því hvert þetta mál muni leiða og það furðar mig að í meirihlutaáliti efh.- og viðskn. um þann hluta málsins skuli ekkert koma fram um þá staðreynd sem ASÍ hefur bent á í dag í fréttum að kjarasamningar séu í uppnámi og að meiri hluti launahækkana muni étast upp með þessari aðgerð. Hefði maður haldið að menn hefðu áhyggjur af þeim upplýsingum. E.t.v. á það eftir að koma betur fram í umræðunni síðar þegar skattahlutinn kemur til umræðu en það er mjög erfitt að vera að ræða þetta mál þegar allt málið er ekki samferða í þinginu.

Herra forseti. Hér er mikill bunki af umsögnum frá hinum ýmsu aðilum, bæði sveitarfélögum og hagsmunaaðilum en eins og komið hefur fram í máli manna í dag og í kvöld er búið að fara yfir þær umsagnir að miklu leyti og benda á afstöðu þeirra aðila sem voru með umsagnir. Ég vil bara ítreka að sveitarfélögin, nánast öll í landinu, eru sammála þeirri brtt. sem Samfylkingin hefur lagt fram um að tekjuskattur verði lækkaður á móti útsvarshækkuninni. Menn munu ekki sætta sig við þessa afgreiðslu málsins og við munum ekki gera það heldur. Við munum því ekki samþykkja þessa leið.