Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 21:12:35 (2326)

2000-11-28 21:12:35# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[21:12]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vissulega styð ég að bændur og dreifbýlisbúar séu studdir við að ná í gott og hreint vatn. Aftur á móti er það ekki rétt, herra forseti, hjá hæstv. ráðherra að þetta sé nýmæli, það er alls ekki rétt. Þessir styrkir voru á hendi landbrn. þó að þeir hafi ekki verið veittir undanfarin tvö ár. Þetta var á hendi landbrn. og á auðvitað að vera á hendi landbrn. Hér er verið að koma með ný verkefni fyrir Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, 25 millj. kr., sem þeim er ekki bætt upp, viðbótarverkefni til vatnsveitna til einstaklinga, til bænda og dreifbýlisbúa sem búa fjarri öðrum veitum.

Auðvitað á að styðja fólk í því og styrkja það. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra í því, en það á ekki að vera á hendi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Það á að vera á hendi landbrn., ráðuneytis hæstv. starfandi félmrh., sem tekur þátt í þessari umræðu, en ekki á vegum jöfnunarsjóðsins.